Goddur flytur fyrirlestur um Gísla B.

Á morgun, sunnudag, mun Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) halda fyrirlestur í Ketilhúsinu um starfsferil Gísla B. Björnssonar í grafískri hönnun síðastliðna fimm áratugi. Fyrirlesturinn verður á milli 15:00 og 16:00. Goddur er prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og hefur um árabil stundað rannsóknir á íslensku myndmáli og táknmyndum í auglýsingum.

Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af síðustu dögum yfirlitssýningar Gísla B. í Ketilhúsinu, Fimm áratugir í grafískri hönnun, sem lýkur 10. ágúst.

Gísli B. er einn atkvæðamesti grafíker íslenskrar hönnunarsögu og hefur komið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi og búið til mörg af þekktustu vörumerkjum landsins. Hann setti á fótauglýsingastofu Gísla B. Björnssonar eftir nám í Þýskalandi 1961 og ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands þar sem hann kenndi óslitið í fimm áratugi.

Aðgangur á fyrirlesturinn og sýninguna er ókeypis.

Nýjast