Góðar aðstæður til skíðaiðkunar í Hlíðarfjalli í alvöru púðursnjó

Mikill fjöldi fólks er nú á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli en þar var opnað kl. 9 í morgun og verður opið til kl. 17. Þar er ágætis veður en snjókoma og aðstæður til skíðaiðkunar með besta móti í alvöru púðursnjó. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli segir að þar hafi tvívegis sést glitta í sólina í morgun og hann á von á miklum fjölda gesta í dag.  

Í gær voru um 5.000 gestir í Hlíðarfjalli, sem er aðsóknarmet og þar af notuðu um 3.400 gestir skíðalyfturnar. Fjöldi fólks var á gönguskíðum og var þar líka hópur fólks að sýna sig og sjá aðra. Í gær var fólk ferjað upp í Hlíðarfjall á rútum, þar sem ekki eru næg bílastæði í fjallinu. Í morgun var þegar byrjað að flytja fólk á svæðið með rútum að sögn Guðmundar Karls, enda öll bílastæði að fyllast.

Nýjast