Góð sala í kjöti um hátíðarnar en erfiðir mánuðir framundan

„Okkar vörur seldust mjög vel og í samræmi við það sem við höfðum gert ráð fyrir.  Framleiðslueiningar okkar á Húsavík og Akureyri eru með mjög mikla afkastagetu í jólavörunum sem við fullnýtum og í raun gott betur," segir Ingvar Gíslason markaðsstjóri Norðlenska um kjötsölu fyrir jól og áramót.  Gunnlaugur Eiðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Kjarnafæðis er einnig ánægður með sölu á kjöti fyrir nýliðin jól og áramót.  

Ingvar segir forsvarsmenn fyrirtækisins ánægða með hversu vel landsmenn hafi tekið vörum þess yfir jólahátíðina. „Þrátt fyrir mikla samkeppni á þessum markaði er hlutdeild okkar rótgrónu vöru að aukast - KEA hangikjötið, Húsavíkurhangikjötið og KEA hamborgarhryggurinn skipa greinilega stóran sess í huga landsmanna,"

Gunnlaugur segir að árið 2009 hafi verið sambærilegt í sölu og árið á undan. „Salan í desember síðastliðnum var mjög hliðstæð sölu í desember ári fyrr," segir hann.  Helstu söluvörur í desember eru hangikjöt, nýtt og reykt svínakjöt, þar á meðal hamborgarhryggur, purusteik og annað álíka kjötmeti. Gunnlaugur segir varðandi það ár sem nú er nýhafið að öllum hljóti að vera ljóst að rekstrarumhverfið gerist ekki erfiðara enþað er um um þessar mundir. „Og það kemur við okkur eins og aðra, en allir þurfa þó að borða," segir hann.

Ingvar segist þess fullviss að neytendur muni áfram velja vörur frá fyrirtækinu enda bjóði það þekkt vörumerki. „Hins vegar eiga kjötgreinarnar erfiða mánuði framundan, verðlagning á kjötvörum er allt of lág og hefur á engan hátt fylgt verðlagi í landinu, það er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir framleiðendur því á sama tíma hafa flest öll aðföng hækkað verulega.  Neysluvísitala hefur frá janúar 2007 hækkað um 33,5%, á sama tíma hefur vísitala kjöts aðeins hækkað um 6,7% .  Það lifir engin við þetta umhverfi  til langs tíma, það er klárt mál," segir Ingvar.  

Nýjast