Nýtt bílaverkstæði Hölds við Þórsstíg á Akureyri var opnað í byrjun febrúar, sem leysir af hólmi verkstæði fyrirtækisins við Draupnisgötu. Ari Þór Jónsson þjónustustjóri segir tæplega hægt að líkja verkstæðunum saman, enda hafi nánast allur tækjakostur verið endurnýjaður.
Þetta er í raun og veru bylting, þrátt fyrir að gamla verkstæðið hafi verið talið ágætlega tækjum búið. Það eru miklar tækniframfarir á þessu sviði, rétt eins og í öðrum greinum, enda gera eigendur bíla miklar kröfur til verkstæða og ekki síður bílaframleiðendur. Tölvubúnaður er nánast alls staðar, sama hvert litið er.
Sumarskoðun
Á þessum tíma eru flestir að láta setja sumardekkin undir bílana og þá er gott að skoða hvernig dekkin hafa slitnað, hugsanlega þarf að hjólastilla bílinn. Sömuleiðis er gott að láta athuga bremsubúnaðinn, þurrkublöð og fleira. Það er auðvitað ýmislegt sem slitnar á veturna og því ágæt regla að láta yfirfara bílinn á þessum árstíma.
Hvað með olíuna?
Þeir sem aka stuttar vegalengdir, þurfa sérstaklega að vera á varðbergi. Þá er hætta á að raki myndist í olíunni, sömuleiðis getur þurft að endurnýja eða hreinsa síur eftir veturinn. Þetta er oft vanmetinn þáttur í eðlilegu viðhaldi bíla, en getur skilað sér til lengri tíma litið, segir Ari Þór Jónsson þjónustustjóri hjá Höldi.
karleskil@vikudagur.is