Góð frammistaða Þórs/KA gegn Þýskalandsmeisturunum

Mynd/Þórir Tryggvason
Mynd/Þórir Tryggvason

Þýskalandsmeistarar Wolfsburg lögðu Þór/KA að velli 1-0 er liðin áttust við á Þórsvelli í dag í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þór/KA var að mæta eina besta lið heims í kvennafótboltanum og leikur einn stærsti félagsleikur sem farið hefur fram hér á landi. Það var því alltaf vitað að við ramman reip yrði að draga fyrir Þór/KA sem sýndi góða frammistöðu og hetjulega baráttu.

Það var hin danska Pernille Harder sem skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik en Pernille var nýlega valin besta knattspyrnukona Evrópu. Landsliðsliðsfyrirliði Íslands, Sara Björk Gunnarsdóttir, leikur með liði Wolfsburg og spilaði allan leikinn. Þór/KA fékk sín færi í leiknum en náði ekki að færa sér í nyt. Gestirnir í Wolfsburg fengu sömuleiðis fín færi til að skora fleiri mörk og lágu í sókn bróður hluta seinni hálfleiks.

Allt kom fyrir ekki og Wolfsburg fer aðeins með eins marks forystu í seinni leikinn sem fram fer í Þýskalandi eftir um tvær vikur eða 26. september.


Nýjast