Glímukóngur- og drottning krýnd á Akureyri um helgina

Mynd/glíma.is
Mynd/glíma.is

112. Íslandsglíman fer fram laugardaginn 15. apríl í íþróttahúsi Glerárskóla, Akureyri en mótið hefst klukkan 12:00. 

Keppt verður um Grettisbeltið í karlaflokki og Freyjumenið í kvennaflokki en sigurvegararnir hljóta sæmdarheitin Glímukóngur og Glímudrottning Íslands.

Ljóst er að nýr glímukóngur mun bætast í hópinn á laugardag en enginn keppenda í karlaflokki hefur áður sigrað mótið. Einnig verður spennandi að sjá hvort að Kristínu Emblu Guðjónsdóttur takist að verja titilinn en hún var Glímudrottning Íslands í fyrra. Íslandsglíman var fyrst haldið í húsi góðtemplara á Akureyri árið 1906 en var seinast haldið fyrir norðan árið 2006. 

Grettisbeltið

Grettisbeltið er merkasti og sögufrægasti gripur í gjörvallri íþróttasögu Íslands og einnig sá elsti. Hefur það verið farandgripur allt frá upphafi og vinnst aldrei til eignar. Sama ólin fylgir beltinu og var á því upphaflega. Grettisbeltið var smíðað í Reykjavík af Erlendi gullsmið Magnússyni. Það er úr silfri og er mynstur þess mjög skrautlegt. Að framan er á því kringlóttur skjöldur með andlitsmynd er á að tákna Gretti fornkappa Ásmundarson er var fangbragðakappi mikill eftir því sem saga hans segir.

Freyjumenið

Fyrsta glímukeppnin um Freyjumenið fór fram 18. júní 2000 um 10 árum frá því konur hófu þátttöku á glímumótum. Það var 19. júnísjóður Garðabæjar sem gaf Freyjumenið.  Freyjumenið er skjöldur, lagður gulli og silfri og perlum. Festin er gerð úr litlum skjöldum sem verða áletraðir nöfnum sigurvegaranna. Sigurvegarinn um Freyjumenið fær sæmdarheitið Glímudrottning Íslands.

Íslandsglíman á Akureyri 

Fyrstu fjórar Íslandsglímurnar fóru fram á Akureyri í umsjá Glímufélagsins Grettis sem hafði að eigin frumkvæði tekið að sér að hrinda þessu merka móti af stokkunum og sá um framkvæmd þess fyrstu árin. Önnur Íslandsglíman fór fram á sama stað og hin fyrsta og var í betra lagi fjölmenn. Alls mættu 24 yngismenn til leiks og hafa aldrei verið fleiri. Fjórir hættu keppni en Jóhannes Jósefsson sigraði nú með yfirburðum og lagði alla sem hann glímdi við. Emil Tómasson fylgdi fast á hæla honum og hlaut mikið hrós fyrir góða glímu. Þessi mikla glíma hófst kl. 5 og stóð til miðnættis. 
Þriðja Íslandsglíman fór einnig fram á Akureyri snemmsumars 1908. Dómnefnd var fimm manna og meðal annars var einn af þeim fulltrúi keppenda. Keppendur voru 14 talsins en aðeins þrír luku keppni. Aðeins tveir keppendur voru frá Akureyri. Flestir keppenda voru úr Mývatnssveit og þeirra helsti kappi, Pétur Jónsson í Reykjahlíð fór úr liði á olnboga í glímu sinni við Jóhannes Jósefsson. Glímumenn Mývetninga voru afar ósammála þeim byltureglum er dómnefnd Grettismanna fór eftir og vildu ekki viðurkenna handvarnir. Töldu þeir Jóhannes margfallinn í viðureigninni við Pétur og við meiðsli Péturs fór glíman út um þúfur og leystist upp. Tíu keppendur hættu þá keppni í mótmælaskyni við úrskurði dómnefndar. Aðeins þrír vildu glíma áfram. Voru það þáverandi glímukóngur, Jóhannes Jósefsson og bræður tveir úr Fnjóskadal. Sigraði Jóhannes í glímum þeirra og hélt titli glímukóngs. Hefur engin Íslandsglíma fyrr né síðar misfarist jafn gjörsamlega né vakið eins heiftugar deilur. Olli því að margir töldu hlutdrægni Akureyringa í dómnefnd og einnig að Þingeyingar höfðu vanist annars konar byltureglum en giltu á Akureyri. 
Fjórða Íslandsglíman var hluti af dagskrá íþróttamóts er haldið var á Akureyri um miðjan júnímánuði 1909. Þetta mót var síðar kallað fyrsta Landsmót UMFÍ þótt það héti engu slíku nafni á þeim tíma. Nú virtist glímualdan á Akureyri hjöðnuð og var aðeins einn keppandi þaðan. Hinir voru úr sveitum Þingeyjarsýslu og nokkrir úr Eyjafirði. Mestum tíðindum sætti þó að tveir keppendur komu úr Reykjavík frá glímufélaginu Ármanni. Annar þeirra, Guðmundur Stefánsson sigraði og hafði þar með Grettisbeltið burt af Akureyri. Hefur það ekki átt afturkvæmt þangað. Í öðru sæti varð hinn Reykvíkingurinn, Sigurjón Pétursson, sem átti eftir að setja svip sinn rækilega á Íslandsglímuna. Nú var í fyrsta sinn glímt með glímubeltum á Íslandsglímu því báðir Ármenningarnir girtust glímubeltum svo og einn Þingeyingurinn, Pétur Sigfússon, Ólympíufari 1908. Eftir þetta voru alltaf notuð glímubelti á Íslandsglímu. 

Rétt að taka fram að hér er stuðst við  frásögn sem er að finna á heimasíðu Glímusambands Íslands www.glima.is

 


Athugasemdir

Nýjast