Glæsilegur sigur hjá Akureyri

Akureyri var nú rétt í þessu að leggja Hauka 28-27 að Ásvöllum í Hafnafirði í DHL-deild karla í handknattleik, í leik sem var svo sannarlega mikilvægt að sigra. Með sigrinum komst Akureyri 6 stigum frá fallsæti og er liðið laust við falldraugin í bili. Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur, Akureyringar höfðu um tíma góða forystu og komust m.a. í 11-8. En þá skoruðu Haukar 7 mörk gegn tveimur frá Akureyri og náðu forystu 15-13.

Í síðari hálfleik náðu Haukar mest 4 marka forystu og það var einungis fyrir frábæra markvörslu Hreiðars Levý Guðmundssonar í marki Akureyrar sem liðið hékk inni í leiknum. Þegar um 10 mín voru til leiksloka höfðu Haukar 3 marka forystu og útlitið svart hjá Akureyri. Þá hins vegar gerðust ótrúlegir hlutir, enginn annar en Rúnar Sigtryggsson hreinlega dreif sóknarleik liðsins í gang og auk þess hreinlega lokaðist vörnin.

Þegar 5 mínútur voru til leiksloka hafði Akureyri jafnað 25-25 með marki Magnúsar Stefánssonar. Hann kom Akureyri svo yfir 26-25 þegar um þrjár mínútur voru eftir og Rúnar Sigtryggsson bætti um betur um hálfri mínútu síðar og kom Akureyri í 27-25. Eftir það var í raun ekki spurning um að Akureyri myndi sigra og lokatölur urðu 28-27. Rúnar Sigtrygsson sagði í viðtalið við RÚV eftir leikinn að hann væri gríðarlega ánægður með sigurinn og með honum hafi Akureyri fjarlægst falldrauginn í bili. Hins vegar megi liðið hvergi slaka á þar sem skammt sé stórra högga á milli í þessari deild.

Nýjast