17. mars, 2007 - 14:57
Fréttir
Erla Björg Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Símey, hlaut glæsilega kosningu í stjórn KEA á aðalfundi félagsins í dag. Hún hlaut 119 atkvæði en 124 greiddu atkvæði. Erla kemur ný inn í stjórn KEA en kosið var um þrjú stjórnarsæti. Auk Erlu hlutu kosningu Jóhannes Ævar Jónsson bóndi og Hallur Gunnarsson, sem hefðu átt að ganga úr stjórn, en Bjarni Jónasson og Steinþór Ólafsson náðu ekki kjöri. Hannes Karlsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Benedikt Sigurðarson og Björn Friðþjófsson voru kosin í stjórn á síðasta ári til tveggja ára. Soffía Ragnarsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hún hefur setið í stjórn sl. 4 ár. Benedikt Sigurðarson tilkynnti á fundinum að hann sæktist ekki eftir sæti formanns í hinni nýju stjórn og gaf í skyn að hann væri að hefja sitt síðasta ár sem stjórnarmaður. Varamenn í stjórn eru Njáll Trausti Friðbertsson, Guðný Sverrisdóttir og Birgir Guðmundsson.