Getum ekki sett fólk á biðlista

Sjúkraliðar í heimahjúkrun eru áhyggjufullir vegna niðurskurðar og vaxandi álags.
Sjúkraliðar í heimahjúkrun eru áhyggjufullir vegna niðurskurðar og vaxandi álags.

“Við höfum hægt og bítandi séð álagið aukast undanfarið, en á sama tíma fækkar starfsfólki, bæði sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum,” segir Erna Hauksdóttir sjúkraliði í heimahjúkrun hjá Heilsugæslustöðinni á Akureyri, en sjúkraliðar hafa lýst yfir áhyggjum vegna niðurskurðar í þjónustu og vaxandi álags. Hún segir að á þéttbýlisstöðum í nágrenni Akureyrar sé það sama uppi á teningnum, verið sé að skerða þjónustu þar og því leiti fólki í vaxandi mæli til Sjúkrahússins á Akureyri. Þar hafi einnig verið skorið niður, starfsfólki fækkað og skurðstofum lokað. 

Útskriftum sé flýtt sem kostur er og sjúklingar endi með að leita eftir þjónustu frá heimahjúkrun. “Það er eina úrræðið sem fólki stendur til boða eftir úrskrift af sjúkrahúsi, þurfi það umönnun eftir heimkomu.  Við getum ekki sett fólk á biðlista eins og tíðkast víða annars staðar, við verðum að veita því þjónustu,” segir Erna.

Hún segir að þeirri stefnu sé fylgt að aldraðir fái að vera heima eins lengi og hægt er og sú þróun sé góð, það sé sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið geti aldraðir verið sem lengt heima.  “En það þarf líka ða huga að því að hafa mannskap til að sinna þessum einstaklingum,” segir Erna. Beinar uppsagnir hafa ekki verið hjá sjúkraliðum í heimahjúkrun, en samningar sem fyrir voru ekki verið endurnýjaðir. Þannig hætti einn sjúkaliði í hálfu starfi um nýliðin áramót en áður höfðu tveir látið af störfum vegna veikinda. Erna segir að þarna sé um að ræða samtals 120% stöðugildi. “Hluti af þeirri prósentu var nýttur til að auka við kvöldvaktarþjónustu okkar, en engum bætt við á morgunvaktir, þar sem álagið eykst jafnt og þétt. Sömu sögu er að segja varðandi hjúkrunarfræðinga, þeim hefur einnig fækkað, þeir veikjast eins og aðrir og eiga við langvinn stoðkerfisveikindi að stríða,” segir hún. 

Heimaþjónustan hefur tekið léttustu vitjanirnar að sögn Ernu, en eftir stendur að sjúkraliðar eru með þær þyngstu og þeim fer fjölgandi. Aðstæður í heimahúsum eru misjafnar. “En við reynum að útvega öll þau hjálpartæki sem hægt er til aðgerahlutina sem auðveldasta en samt sem áður eru þetta oft á tíðum erfiðar aðstæður að vinna við.” segir hún.

Erna telur að til lengdar gangi þetta ekki upp, álagið sé mikið, andlegt og líkamlegt, starfsfólk þreytist, veikindi aukist. “Ég held að með fækkun starfsfólks samhliða auknu álagi þá sé algjörlega verið að kasta krónunni fyrir aurinn, því miður.“  Heilsugæslustöðinni séu settar þröngar skorður og að sjúkraliðar skilji að skoða þurfi hvar hægt sé að draga saman. “Hér held ég að fólk ætti að staldra við, því við erum að tala um fólk en ekki tölur á blaði. Sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar leggja sig alla fram við að sinna fólkinu nótt sem nýtan dag. Þetta er röng þróun, við erum á leið aftur til fortíðar með heilbrigðisþjónustuna okkar,” segir Erna.

 

 

 

Nýjast