„Getum blandað okkur í toppbaráttuna“

Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu rúllar af stað í dag með heilli umferð. Þór/KA fær Íslandsmeistara Stjörnunnar í heimsókn í fyrstu umferð og hefst leikurinn kl. 16:00 í Boganum, en vegna slæmrar veðurspár var leikurinn færður af Þórsvelli. Norðanliðið mætir með mikið breytt lið til leiks frá því í fyrra. Nýr þjálfari tók við liðinu sl. haust, Jóhann Kristinn Gunnarsson, en hann tók við af Hlyni Svan Eiríkssyni sem nú þjálfar Breiðablik. Einnig hafa margir lykilmenn liðsins farið frá félaginu og því mætir Þór/KA til leiks í sumar sem óskrifað blað. Vikudagur sló á þráðinn til Jóhanns Kristins í vikunni og spurði hann út í sumarið.

„Hér eru allir spenntir og klárir í slaginn. Við höfum ekki sett okkur neitt markmið um að ná ákveðnu sæti í deildinni en við ætlum okkur að vera með í toppbaráttunni,“ segir hann. Sem fyrr segir hefur leikmannahópur Þórs/KA tekið miklum breytingum og mest munar um þær Rakel Hönnudóttir (Breiðablik), Mateju Zver (Slóvenía), Manyu Makoski (Finnland) og markvörðinn Berglindi Magnúsdóttur (Danmörku), en allar spiluðu þær stórt hlutverk með liðinu í fyrra. Þór/KA hefur hins vegar bætt við sig sterkum leikmönnum. Liðið hefur t.d. fengið þrjá Bandaríkjamenn, markvörðinn Chentel Nicole Jones og framherjana Kayle Grimsley og Tahnai Annis, og landsliðskonuna Katrínu Ásbjörnsdóttur frá KR og Þórhildi Ólafsdóttur frá ÍBV. Þór/KA gekk illa á undirbúningstímabilinu og fór stigalaust í gegnum Lengjubikarinn í vetur, en mikið af sterkum leikmönnum vantaði hins vegar í liðið í þeirri keppni.

Í árlegri spá forráðarmanna félaganna í deildinni er Breiðablik spáð Íslandsmeistaratitlinum en Þór/KA er spáð fimmta sætinu. Um þá spá segir Jóhann: „Þetta er eflaust bara eins og menn sjá þetta núna eftir leikina í vetur og hvað menn hafa verið að bæta við sig og missa. Við teljum okkur geta endað ofar.“ Hann segir spennandi verkefni að mæta Íslandsmeisturum Stjörnunnar í fyrsta leik. „Það er alveg frábært að byrja á móti þeim á flottum Þórsvellinum. Við ætlum okkur að gera heimavöllinn sterkan og reynum að ná góðum úrslitum í fyrsta leik,“ sagði Jóhann.

Nýjast