„Geta pabbar ekki grátið?”

Inga Eydal veltir fyrir sér brennandi spurningu.
Inga Eydal veltir fyrir sér brennandi spurningu.

Skáld og textahöfundar hafa löngum haft þekkingu á mannlegu eðli. Það kemur fram í ótal kvæðum og dægurlagatextum svo þeim sem vitnað er til í titlinum hér að ofan. Það að gangast við eigin tilfinningum og leyfa þeim að flæða hefur orðið ýmsum yrkisefni, s.s. fjallaskáldinu Kristjáni Jónssyni sem orti á nítjándu öldinni um depurðina og tárið sem „ótal læknar sár“.

Við hér á Íslandi höfum þó líklega ekki átt auðvelt með að sýna tilfinningar og skáldin kannski fengið meira frelsi í þeim efnum en alþýðufólk sem þurfti að bíta á jaxlinn og gat ekki leyft sér að gráta nema kannski í sjaldgæfu einrúmi..

Í árangursdrifnu nútímasamfélagi virðast þessar kröfur um að bæla tilfinningar sínar, enn lifa góðu lífi og sá sem nær tökum á þeirri list er álitinn eiga betri möguleika á árangri. Líklega er þetta þó skæð hugarvilla því frelsið liggur fremur í því að sleppa tökum á tilfinningum okkar og leyfa þeim að vera það sem þær eru.

Við erum öll tilfinningaverur, tilfinningar, skynjun og hugsanir eru fylgifiskar mannlegrar tilveru. Einungis með því að gangast við þeim og skoða með opnum huga getum við forðast að þær taki af okkur stjórnina. Það að vera í sífelldri andstöðu við eigin hugsanir og tilfinningar eða vera á eilífum flótta undan erfiðum upplifunum er ekki mjög hjálplegt. Það skilar okkur mun betri árangri að leggja vopnin niður, leyfa tilfinningunum,- líka þeim óþægilegu að vera með í ferðalaginu og snúa okkur að því að rækta lífsgildi og langvarandi hamingju með hegðun okkar og atferli.

Ofantalið er grunninntakið í ACT (Acceptance and Commitment Therapy) eða sáttar- og atferlismeðferð, ört vaxandi, þverfaglegri meðferðarnálgun sem á sér sífellt traustara fræðilegt bakland. Frá upphafi hefur meðferðin verið notuð og kennd bæði í einstaklingsmeðferð og á hópnámskeiðum hjá Heilsu og sálfræðiþjónustunni sem eitt af öflugum verkfærum í heilsueflingu.

Það er ótrúlega spennandi þegar vísindin leyfa sér að skoða og rannsaka óáþreifanlega hluti eins og hamingju, kærleika og siðferðisleg gildi. Sálfræðingarnir sem þróuðu ACT meðferðina  á 9. áratugnum og öll þau sem hafa unnið með hana síðan, hafa verið óhrædd við að rannsaka áhrif þessara fyrirbæra á mannshugann, velferð okkar, heilsu og hamingju. Og þær rannsóknir styðja mikilvægi þess að mæta erfiðu tilfinningunum okkar með sátt en vera ekki í andstöðu við sjálfan sig. Þá þarf ekki lengur að spyrja að því hvort „pabbar geti grátið”.

Það er gott að rækta andlega heilsu á sama hátt og líkamlega heilsu jafnvel þótt sjúkdómar séu ekki til staðar,-kíkja í viðtal til fagaðila, ræða stöðuna, fá fræðslu og stuðning eða fara á námskeið. Við erum öll að klífa sama lífsfjallið, sama hvert útsýnið er, og öllum er okkur hollt að leggja inn á eigin heilsureikning.

 

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og starfar hjá Heilsu og Sálfræðiþjónustunni á Akureyri.

 


Athugasemdir

Nýjast