Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur fengið heimild til þess að útskrifa matreiðslu- og framreiðslumenn en til þessa hafa nemendur þurft að fara suður yfir heiðar og ljúka náminu þar. Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri matvælabrautar VMA, segir þetta mikið og stórt skref. Hún segir jafnframt að þetta geti skipt máli fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu sem kallar eftir því að fá fleira menntað fólk á þessu sviði. Marína segist vonast til þess að strax næsta haust verði unnt að bjóða upp á framhaldsnám við matvælabraut. Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags.