Gert ráð fyrir blóðskilunar- meðferð á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

„Stjórnendum og starfsmönnum Sjúkrahússins á Akureyri er ljós þörfin fyrir blóðskilunarmeðferð á svæðinu og mikill vilji er hér fyrir því að koma slíkri meðferð af stað,“ segir Gróa Björk Jóhannesdóttir barnalæknir og framkvæmdastjóri lyflækningasviðs sjúkrahússins. Blóðskilunarmeðferð er einungis veitt  í Reykjavík, á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og hefur nokkur umræða orðið að undanförnu um þá stöðu. 

Fram hefur komið að fólk hafi ýmist lagt í mikinn kostnað við að sækja þjónustuna suður eða hreinlega flutt búferlum af svæðinu vegna þess að þjónustna vantar norðan heiða. Gróa Björk segir að í framtíðarsýn og starfsáætlun sjúkrahússins sé gert ráð fyrir að blóðskilunarmeðferð sé veitt þar og er unnið að því.  „Við erum bjarsýn á að það takist í ekki of fjarlægri framtíð,“ segir hún, en blóðskilun sé þó meðferð sem ekki verði tekin upp í skyndi.  Þar skipti m.a. tæki og tækni máli sem og þverfagleg þekking sem þurfi að vera til staðar.

„Það hefur áður komið upp umræða um þetta mál, en þá lánaðist ekki að koma þessu í kring, en nú er þetta forgangsverkefni,“ segir Gróa Björk. Sjúkahúsið hafi burði til að taka verkefnið að sér í samstarfi við Landspítala, með hjálp velunnara og ráðuneytis.  Málið sé þó enn á byrjunarstigi. Til að það gangi þurfi að byggja upp fagþekkingu og reynslu á staðnum, auk þess sem  sjúkrahúsið þurfi bakland á Landspítala með samstarfssamningi m.a. um læknisþjónustu.  

„Kostnaðarhliðin skiptir líka máli, en við skynjum velvilja yfirvalda til flutnings verkefna nær sjúklingnum, enda felst í því sparnaður til lengri tíma litið. Við verðum líka vör við gjafmildi félagasamtaka og fyrirtækja, en í nútímanum er tækjakostur og annar stofnkostnaður að miklu leyti fenginn að gjöf frá velunnurum og þegar nær dregur verður jafnvel blásið til söfnunar,“ segir Gróa Björk.

Blóðskilunartæki sem hentar við bráðanýrnabilun hjá rúmföstum sjúklingum er til staðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en það byggir á annarri tækni en þegar um er að ræða langvinna nýrnabilun.  Í slíkum tilvikum er algengast að sjúklingar komi í skilun í nokkrar klukkustundir í senn, annan hvern dag, en eru lausir þess á milli.  Einhverjir geta nýtt sér blóðskilun heima, en þurfa að hafa aðgang að þjónustu á sjúkrahúsi komi upp vandamál.  Gróa Björk kveðst ekki vita til þess að heimaskilun sé í gangi á Norðurlandi.

Nýjast