Gerir útgáfusamning í Bretlandi
Húsvíkingurinn Axel Flóvent Daðason hefur gert samning við breska útgáfufyrirtækið Trellis Records um útgáfu á tónlist hans á annars vegar netinu og hins vegar smáskífu. Fyrsta lagið hans, Beach, verður formlega gefið út í Bretlandi 15. desember næstkomandi en fyrirtækið mun annast útgáfu og dreifingu laga Axels í Bretlandi næstu tvö árin. Frá þessu er greint á vef Verkmenntaskólans á Akureyri í morgun en Axel er þar nemendi á næstsíðustu önn á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar. Í samtali við Vikudag segir Axel að þetta sé fullkomið tækifæri fyrir ungan tónlistarmann.
Fyrirtækið er vel þekkt í Bretlandi og getur opnað margar dyr fyrir mér, segir hann. En er frægð og ríkidæmi handan við hornið? Ég veit það ekki, segir Axel og hlær. Ef Bretar taka vel í lagið er aldrei að vita nema þetta sé byrjunin á einhverju stærra. Aðspurður um hvernig tónlist hann spilar segir Axel: Þetta er hálfgert popp en ég hef kosið að skilgreina þetta sem indie folk tónlist.
Axel Flóvent hefur undanfarin tvö ár sett tónlist sína inn á Youtube tónlistarveituna og á þessu ári vistaði hann einnig nokkur lög inn á vefsíðunni Soundcloud.com, þar á meðal lagið Beach sem hann samdi sl. sumar þegar hann vann á Hótel Hallormsstað.
Hann segist hafa verið hissa að fá hringingu erlendis frá. Ég bjóst alls ekki við þessu svo þetta kom skemmtilega á óvart. En ég er ákveðin í því að nýta mér þetta í botn, segir Axel. Í næstu viku, miðvikudagskvöldið 3. desember, gefst tækifæri til þess að hlýða á tónlist Axels þegar þau koma fram á Backpackers á Akureyri.
-þev