Gerir ráð fyrir röskun á skólastarfi á vorönn

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA. Mynd/VMA
Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA. Mynd/VMA

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA segir að í ljósi mikillar fjölgunar smita að undanförnu séu á margan hátt óvissutímar í byrjun vorannar 2022 og megi gera ráð fyrir röskun á skólastarfi á vorönn. Greint er frá þessu á vef skólans

„Það má gera ráð fyrir að það verði töluverð truflun á skólastarfi á vorönn vegna þess að bæði einhverjir nemendur og kennarar verða að fara í einangrun og sóttkví. Þetta segi ég vegna þess að smitin eru svo almenn út í samfélaginu. Vissulega hefur verið eitthvað um slíkt hér í skólanum frá því að faraldurinn hófst en við höfum búið okkur undir að það verði í mun meira mæli á þessari önn en áður. Til þess að þessar aðstæður hafi sem minnst áhrif á nám nemenda hefur verið tekin ákvörðun um að bregðast við m.a. með því að í lok annar verði ekki lofapróf eins og verið hefur en þess í stað verði námsmatið í formi símats. Með þessu er unnt að ná fram ákveðnum sveigjanleika ef á þarf að halda vegna mögulegrar fjarveru nemenda og kennara.

Þegar og ef nemendur eða kennarar eru í sóttkví eða einkennalaus í einangrun er gert ráð fyrir því að þeir sinni námi og kennslu. Nemendur hafa rafrænan aðgang á Moodle, Innu eða á öðrum stöðum sem kennararnir vísa til að öllu námsefni í viðkomandi áföngum og eiga því að geta fylgt eftir námsáætlunum eins og mögulegt er. Auðvitað er misjafnt á milli áfanga hvernig þessu er háttað og það er ljóst að þetta er mun snúnara í verknámsáföngum. Ef kennari verður í sóttkví fellur kennsla ekki niður, þá færist hún yfir í fjarkennslu og nemendur eiga að mæta í þær kennslustundir, rétt eins og um venjulegan skóladag væri að ræða í dagskóla, og mæting nemenda verður skráð. Markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að námið geti haldið áfram og sem allra minnst röskun verði á því, jafnvel þótt kennarar eða nemendur séu í sóttkví eða einkennalaus í einangrun. Við höfum beðið kennara að gera nemendum grein fyrir því í fyrstu kennslustundum í áföngum hvernig fyrirkomulagið verði ef sú staða kæmi upp að kennarar og/eða nemendur þyrftu að sæta sóttkví.

Við gerum okkur alveg grein fyrir því að í skóla, þar sem samanlagður fjöldi nemenda og starfsmanna er á annað þúsund, að þessi staða mun koma upp og strax á fyrsta skóladegi hefur þetta gerst, einn af kennurum okkar er í einangrun og hefur þegar verið í sambandi við sína nemendur,” segir Sigríður Huld.
Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að nemendur verði virkir í sínu námi, hvaða aðstæður sem upp kunni að koma, og þess vegna muni kennarar verða í góðu sambandi við nemendur sína,“ segir Sigríður Huld en nánar er rætt við hana á heimasíðu VMA

 


Athugasemdir

Nýjast