Gerir ekki athugasemdir við ráðningarferlið

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir

Umboðsmaður Alþingis hefur ályktað um mál Ólínu Þorvarðardóttur gegn Háskólanum á Akureyri vegna ráðningar Sigrúnar Stefánsdóttur í stöðu forseta við hug- og félagsvísindasvið HA í október í fyrra. Málinu er lokið af hálfu umboðsmanns og gerir hann ekki athugasemdir við ráðningarferlið. Þetta staðfestir Eyjólfur Guðmundsson rektor HA í samtali við Vikudag. Eyjólfur vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu. Hann hyggst fara yfir niðurstöðu umboðsmanns með þeim aðilum sem komu að ráðningu Sigrúnar. 

Ólína Þorvarðardóttir vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað en hún segist íhuga framhaldið.

Ólína var ein af sex umsækjendum um stöðu forseta við hug- og félagsvísindasvið HA. Mikið fjaðrafok var í kringum ráðninguna og í tvígang urðu tafir á afgreiðslu háskólaráðs. Í leynilegri kosningu fyrr um haustið innan hug- og félagsvísindadeildar skólans fékk Ólína 16 atkvæði og sömuleiðis Rögnvaldur Ingþórsson heimspekingur. Sigrún Stefánsdóttir fékk 13 atkvæði. Kosið var á milli Ólínu og Rögnvaldar og fékk Ólína þá 20 atkvæði en Rögnvaldur 19 atkvæði.

Báðar atkvæðagreiðslurnar voru leynilegar en það er rektors skólans að skipa í stöðuna. Stefán B. Sigurðsson var rektor HA þegar ráðið var í stöðuna. Hann styðst meðal annars við úrslit kosninganna og sömuleiðs við álit dómnefndar. Sigrún, sem er doktor í fjölmiðlafræði, var ráðin í stöðuna og í kjölfarið óskaði Ólína eftir áliti Umboðsmanns Alþingis.

-þev

Nánar er fjallað málið í prentútgáfu Vikudags

 

Nýjast