Gerði áhugamálið að atvinnu

Heiðdís við  förðunaraðstöðuna sem hún hefur útbúið á heimili sínu
Heiðdís við förðunaraðstöðuna sem hún hefur útbúið á heimili sínu

Heiðdís Austfjörð Óladóttir er eigandi vefverslunarinnar Haustfjörð.is. Meðfram því að sjá alfarið um verslunina tekur hún að sér förðun, starfar sem hárgreiðslukona og sér um smink fyrir Leikfélag Akureyrar. Heiðdís er fædd árið 1986 á Húsavík og aðeins 5 ára gömul mætti Heiðdís í vinnuna til pabba síns með tvö ,,glóðaraugu” eftir að hafa prófað nýju augnskuggana sína.

,,Ég byrjaði snemma að fikta í dótinu hennar mömmu og prófa varaliti og maskara. Eftir því sem á leið fór ég að prófa meira, fikta í öllu og svo að kaupa mér ofboðslega mikið af snyrtivörum. Þetta hefur því fylgt mér mjög lengi”. Heiðdís segist ekki hafa séð fyrir að förðunin væri eitthvað sem hún gæti gert að alvöru starfi og leit meira á þetta sem áhugamál. Hún stefndi á að læra sálfræði og segir að þrátt fyrir að hafa ekki gert það, fái hún sinn skerf af sálfræðinni í förðuninni.

,,Það er mjög mikilvægt að vera með það á hreinu hvernig þú átt að höndla fólk ef það kemur illa fyrirkallað til manns, sem er bara allt í lagi.”

Heiðdís hafði þó hug á því að mennta sig í tengslum við áhugamálið sitt og fór að skoða skóla erlendis þar sem henni þótti úrvalið í förðunarskólum hér á landi ekki nógu gott á þeim tíma. Hún sótti um í Delamar Academy í London haustið 2007. Það nám tók ár og þar var farið yfir flest allt í förðunarbransanum:

,,Þar er m.a. kennd hárkollugerð, að búa til gerviskegg,  ,,special effects”, leikhús kvikmyndaförðun, tískuförðun og allt ferlið á bakvið bransann. Það þótti mér hrikalega spennandi. Mamma hvatti mig til að sækja um, sem var náttúrulega rétt hjá henni. Það er það gáfulegasta sem ég hef gert að stökkva á þetta, korteri eftir að ég kem heim er hrun og verðið á skólanum hækkar um meira en milljón.”

Eftir að heim var komið fór Heiðdís á fullt að koma nafninu sínu að hjá sjónvarpsstöðvum, leikhúsum og á fleiri stöðum. Hún hélt í fyrstu að hún hefði ekki áhuga á leikhúsförðun en annað kom á daginn og hefur hún alfarið séð um hár og förðun fyrir Leikfélag Akureyrar frá árinu 2011. Heiðdís lét sér förðunarfræðin ekki nægja og tók sveinspróf í hárgreiðsluiðn árið 2014.
     Henni hafði þótt snyrtivöruúrval hér á landi frekar lítið og það vantaði fleiri ódýrar en góðar vörur. Eftir að hafa frestað því í svolítinn tíma sló hún til og stofnaði vefverslunina Haustfjörð.is þann 17.apríl 2014. Eftir það fór boltinn að rúlla hratt og á síðunni selur Heiðdís átta mismunandi vörumerki.

,,Ég passa að þekkja merkin mín vel svo ég geti veitt viðskiptavinunum persónulega ráðgjöf um allar vörurnar. Ég er mjög bjartsýn fyrir framtíðinni og tel mig vera komna með eitthvað fyrir alla. Ég gæti þó hugsað mér að fara færa lagerinn úr svefnherberginu mínu!”

 

Heiðdís segir úrvalið af snyrtivörum hafa færst úr búðunum og á netið. Áhuginn hér á landi hefur aldrei verið meiri og eftirspurnin er eftir því. Vinnan á bakvið síðuna er því mikil og allur lagerinn er inni á heimili Heiðdísar. Í upphafi ætlaði hún Haustfjord.is sem aukavinnu en það var fljótt að breytast.

,,Það er einhver make-up sprenging búin að vera síðustu 1-2 árin og án þess að vita það opna ég þessa síðu á hárréttum tíma. Kannski hefur maður haft einhver áhrif á að þessi sprenging varð. Stelpur eru í dag svo rosalega áhugasamar um snyrtivörur og held að Instagram, Youtube og Snapchat spili þar stórt hlutverk. Það eru allir að uppgötva eitthvað nýtt og það eru endalaust að poppa upp ný merki sem allir vilja prófa. Snyrtivörur er líka orðnar auðveldari í notkun, þessar dýru vörur eru oft flóknari og þarf jafnvel að nota í ákveðnum skrefum. Þessar yngri stelpur hafa þá gaman af vörum sem þær skilja hvernig á að nota.”

Í framhaldi af þeirri umræðu segir hún samfélagsmiðla hafa mikil áhrif á snyrtivöruheiminn. Snyrtivörur fái þar fría auglýsingu. Heiðdís segir það þó slæmt hvað ungar stelpur séu áhrifagjarnar.

,, Á þessum miðlum er oft verið að mála sig svo ofboðslega mikið og margar ungar stelpur eru þannig að ef þær sjá eitthvað á Snapchat þá verða þær að gera það og eiga vöruna. Það er ekki alveg þannig, maður verður bara svolítið að finna sig”.

Besta förðunarráðið sem Heiðdís hefur fengið og vill deila með öðrum er að byrja alltaf á því að farða augun. Það flýtir fyrir þar sem að það getur orðið vítahringur þegar augnskuggar eða annar farði fer á húð sem búið er að farða.

Nú líður að jólum og Heiðdís segir jólin alltaf mjög skemmtilegan tíma því það sé tími glimmers.

,,Gull og silfur eru alltaf jól og áramót. Þegar það dimmir koma inn fjólubláir og plómutónar sem henta vel með gylltu. Svart og silfur er líka alltaf klassískt. Það hefur orðið svolítill misskilningur að það þurfi að breyta andlitinu algerlega með því að ,,baka” húðina og nota of mikið af skyggingum og ljóma. Þegar kemur að því að húðin sé förðuð fallega á ,,less is more” algerlega við.

-EBB

Nýjast