Menn segja: - Við eigum ekki að keppa við önnur lönd um almenn framleiðslustörf, líkamleg störf, láglaunastörf. Menn segja: - Ísland er á leiðinni frá framleiðsluþjóðfélagi til þjónustuþjófélags svo það er eðlilegt að framleiðslan færist í austur, þangað sem lægri eru launin og skilyrðin betri. Menn segja: - Það er gott mál að flytja framleiðslu BYKO og Actavis til Austur-Evrópu, eðlilegt að flytja vinnuaflsfreka fatagerð til Austur-Asíu, í skattaparadísirnar og þrælabúðirnar. Menn segja: - Framtíðin liggur í menntafólki, hugviti og fjármálaþjónustu.
Sumum finnst þessi hnattvæðing voða fín þróun. Mér finnst það nú ekki. Hvað er fínt eða eðlilegt við það að Pólverjar og Kínverjar eigi að framleiða en Íslendingar að ástunda hugvit og fjármálaþjónustu? Þetta er gamaldags nýlendustefna í hugsun. Svo verður íslenskt framleiðslulíf sífellt fábreyttara og brátt verður fátt annað framleitt hér en ál.
Til hvers er ég að röfla þetta? Jú, í minningu iðnframleiðslunnar á Gleráreyrum. Á þessu ári var stöðvuð síðasta framleiðslan í þeim verksmiðjuiðnaði sem þar var stundaður á aðra öld, nánar tiltekið þegar þegar Skinnaiðnaður hætti framleiðslu í febrúar sl. Tóvélar Eyfirðinga hófu ullarvinnslu á Gleráreyrum árið 1897, fjórir starfsmenn unnu þar við eina kembivélasamstæðu, spunavél og tvinnigarvél sem snérust fyrir vatnskrafti úr Glerá. Það var upphaf verksmiðjuþorps sem lengi var atvinnuleg þungamiðja Akureyrar. Þróunin varð stig af stigi: ullardúkar, vefnaður og prjón, skinnaiðnaður, sútun, skógerð, bómullariðja, klæðagerð í sífellt stærri stíl fyrir innlendan markað og erlendan, mokkasútun, skinnfatagerð. Eftir að síðasta tollvernd iðnvarnings var afnumin 1980 þyngdist reksturinn mjög. En verksmiðjuframleiðsla hafði staðið þarna í 109 ár þegar starfsfólk Skinnaiðnaðar yfirgaf vinnustaðinn í síðasta sinn, á sömu lóð og Tóvélarnar fóru í gang 1897.
Almennt held ég að Akureyringar hugsi með trega til þess iðnaðar sem þarna lifði og dó. Það er eðlilegt. Fötin og skórnir frá Akureyri voru landsmönnum lífsnauðsyn á tímum heimskreppu og heimsstyrjaldar. Iðnaður bæjarins takmarkaðist aldrei við Gleráreyrar en þar var framleiðslan þó mest. Þegar mest var, kringum 1980, störfuðu þar um 1000 manns. Flestar fjölskyldur bæjarins áttu einhverja tengingu inn í verksmiðjurnar. Sjálfur vann ég þar við sútun eitt ár þegar ég var nýfluttur í bæinn. Svo telja ýmsir eins og ég að við þyrftum ennþá alhliða atvinnulíf, að það sé mikil sóun verðmæta að leggja niður iðnað á Íslandi, sóun að henda þeirri verklegu þekkingu og færni sem hér hafði myndast (ég þekki það vel sem skipasmiður), sóun að hætta annarri framleiðslu en áli. Okkur finnst atvinnulífið fátæklegra á eftir.
Nú hefur það sem eftir er af gömlu verksmiðjunum verið keypt til niðurrifs. Það er tímanna tákn að í stað verksmiðjuhúsanna skuli rísa hver verslunarhöllin af annarri og að við bráðum fáum að sjá eins og eina Smáralind á rústum gamla iðnaðarþorpsins. Það er óvíst að grónir Akureyringar verði mjög upprifnir yfir skiptunum. Í haust hefur Jón Arnórsson sögubjargvættur ítrekað vakið athygli á því í blöðum (m.a. Vikudegi 26. október) að varðveita verði brot þessarar atvinnusögu og stóra kafla úr bæjarsögu. Hugmynd hans er að bjarga einu húsi, elsta og sögufrægasta húsinu á Eyrunum: gamla Gefjunarhúsinu sem reist var af Verksmiðjufélagi Akureyrar árið 1907. Í því húsi var aðalstarfsemi ullarverksmiðjunnar fram yfir 1950 og síðar voru þar aðalskrifstofur SÍS-verksmiðjanna fram um 1990. Húsið er elsta stóra steinhús á Akureyri (úr múrsteini og steinsteypu) og arkítektúr þess var um margt sérstakur. Hugmyndin er því snjöll. Húsafriðunarnefnd ríkisins hefur látið frá sér álit þar sem segir m.a.: „Gefjunarhúsið hefur mikið varðveislugildi vegna fágætis, menningarsögu og byggingarlistar."
Auðvelt ætti að vera að finna húsinu nýtt hlutverk í hinu nýja verslunarsamhengi. En mér skilst að sú hugmynd hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá skipulagsyfirvöldum bæjarins, hvað þá hinum nýju eigendum. Mér er tjáð að sú barátta sýnist töpuð þar sem hvorki sé áhugi fyrir slíku hjá hinum nýju eigendum né bæjaryfirvöldum. Jón Arnþórsson kvað þá eiga sér plan B: að varðveitt verði eitt veggjarbrot gamla hússins sem minnisvarði um atvinnusöguna miklu. Smátt finnst mér það. Ef þetta hús verður rifið sýnist Akureyri vera sinnulaus um fortíð sína. Fyrir hönd fyrrverandi starfsfólks á Gleráreyrum set ég fram óbreytta lágmarkskröfu: Látið gömlu Gefjuni standa!
Þórarinn Hjartarson