Gefa þurfandi fyrir mat

Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir.
Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir.

 

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum i fjömiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Þær Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti Facebook-hópnum: Matargjafir Akureyri og nágrenni, þar sem þær sjá um að deila út matvöru til þeirra sem minna mega sín. Þær hafa staðið fyrir þessum matargjöfum undanfarin fimm ár en senn líður að sjöttu jólunum sem þær sjá um að gefa mat. 

„Ég var bara eitthvað að fikta á Facebook og sá þá síðu sem sér um að gefa matargjafir í Reykjavík og ákvað að skella einni upp hér á Akureyri,” segir Sunna sem fékk svo Sigrúnu til liðs við sig.

Þær halda úti Facebook-hópnum: Matargjafir Akureyri og nágrenni en í hópnum eru u.þ.b. 1.700 meðlimir. Í gegnum hópinn fá þær aðstoð utan úr bæ frá fólki sem vill gefa matvöru sem það sjálft getur ekki nýtt. „Við fáum yfirleitt beiðnir, frá fólki í vanda, beint til okkar og við sjáum um að setja auglýsingu á síðuna,“ segir Sigrún.

Til að byrja með fóru þær sjálfar og keyptu matvöru fyrir fólk - það nauðsynlegasta, en eftir komu Bónuskortanna heyrir það sögunni til. Fólk getur nú keypt sjálft inn með slíkum kortum. Aðspurðar hvers vegna þær hafi ákveðið að fara út í þetta segja þær að það hafi verið orðið erfiðleikum bundið fyrir marga að sækja um hjá hjálparsamtökum á borð við Mæðrastyrksnefnd þar sem allir koma á sama tíma. Hver og einn kemur hins vegar til þeirra á eigin forsendum og er fullum trúnaði heitið.

Hátíðirnar erfiður tími

Eins og gefur að skilja geta hátíðirnar verið erfiður tími og það er engin undantekning á því á þessum vettvangi en Sunna og Sigrún gera auglýsingu fyrir hver jól þar sem þær óska eftir beiðnum og ábendingum en þær hafa nú þegar komið sér upp lista fyrir komandi jól. Þó þær geti engu lofað fólki, þar sem þær stóla á framlög frá einstaklingum, hafa hlutirnir alltaf bjargast einhvern veginn. Þær stöllur segja að síðustu fimm jól hafi þær náð að útvega 460 fjölskyldum matvöru fyrir jólin.

Þær hafa nýtt framlög einstaklinga til þess að kaupa Bónuskort fyrir fólk í vanda, en hafa reyndar undanfarið einnig fengið hangikjöt og svínahamborgarhryggi en þá hafa Bónuskortin nýst til kaupa á meðlæti og annað. Matargjafir Akureyri og nágrenni starfa þó ekki eingöngu fyrir og um jól. Hópurinn er starfrækturallt árið þó flestar beiðnirnar berist yfir hátíðirnar; jól og páska.

Erfitt starf en gefandi

Þær Sunna og Sigrún sinna þessu verkefni af miklum krafti og í hreinni sjálfboðavinnu. Þær standa fyrir öllu sjálfar ásamt því að fá hjálp frá viljugum í gegnum Facebook-hópinn. Síðustu ár hafa þær reynt að fá fyrirtæki til þess að leggja eitthvað til en án árangurs. Þær taka við ábendingum um fólk í vanda sem sækist ekki eftir hjálpinni að eigin frumkvæði, en best er að hafa samband í gegnum síðuna. Þessar kraftmiklu konur vilja koma á framfæri þakklæti til þeirra örlátu einstaklinga sem hafa styrkt framtakið með einum eða öðrum hætti því án þeirra hjálpar væri þetta ekki hægt.  

Hægt er að styrkja Matargjafir Akureyri og nágrenni með framlögum inn á bankareikning: 1187-05-250899, kt. 670117-0300 en þær taka einnig við matvöru og Bónuskortum.

-TRR

 


Athugasemdir

Nýjast