Gátu ekki leynt aðdáun sinni á KA-merkinu

Ingólfur Sverrisson  skrifar

Eyrarpúki

Loksins, loksins var nýi íþróttavöllurinn á Akureyri vígður föstudaginn 14. ágúst árið 1953. Að athöfninni lokinni léku Þór og KA fótboltaleik.   Daginn eftir hófst svo Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum og þar með var bærinn okkar viðurkenndur með fyrsta flokks íþróttaaðstöðu. Ákvörðun um að byggja völlinn var tekin í bæjarstjórn 1944 en framkvæmdir hófust ekki fyrr en fjórum árum síðar. Enginn æsingur þar, en okkur strákunum á Eyrinni var slétt sama um það og fögnuðum þessari glæsilegu aðstöðu sem upp var risin og fórum að venja komur okkar á nýja völlinn. Þá fyrst kynntist ykkar einlægur því að fleira var til en fótbolti því þarna var boðið upp á ljómandi aðstöðu til að stunda frjálsar íþróttir: Ný hlaupabraut, kasthringir og aðstaða fyrir hástökk og langstökk. Þetta var gaman og fyrr en varði vorum við farnir að æfa og keppa við jafnaldra okkar úr öðrum bæjarhlutum. Kári Árnason úr Hólabrautinni var einlægt betri en við hinir, stökk bæði lengra og hærra og svo frár á fæti að enginn hafði roð við honum.  Síðar reyndust þessir hæfileikar honum vel þegar hann varð landsfrægur fótboltamaður.

Á þessum tíma áttu Akureyringar frábæra frjálsíþróttamenn sem við strákarnir horfðum mjög upp til. Úr þeim vaska hópi má nefna Óðin Árnason sem var í fremstu röð langhlaupara ásamt Hreiðari Jónssyni millivegahlaupara. Þessir kappar fóru jafnan hægt af stað í hlaupunum og oft aftastir framanaf  en þegar nær dró markinu hertu þeir á sér og áður en yfir lauk voru þeir komnir vel fram úr öðrum og fögnuðu oftast sigri. Þessi frammistaða kallaði á ómælda aðdáun okkar strákanna á þeim og fleiri afreksmönnum og við áttum þann draum heitastan að ná sama árangri og verða frægir! Það kom sér því vel, eftir að nýi íþróttavöllurinn var kominn í brúk, að KA tók þjálfun ungmenna í frjálsum föstum tökum undir stjórn bankamannanna Halldórs Helgasonar og Haralds Sigurðssonar  Þeir hvöttu okkur sem vorum að hlaupa og stökkva á nýja svæðinu að ganga í félagið, æfa þar og keppa svo undir merki KA þegar tímar liðu fram. Enginn gæti náð marktækum árangri nema æfa skynsamlega og leggja hart að sér. Þarna var teningnum kastað og ykkar einlægur gekk í KA þrátt fyrir að vera kominn af þekktri Þórsfjölskyldu. En nauðsyn braut allar hefðir enda til mikils að vinna ef vel tækist til.   

Því var það að dag einn kom ég heim með útsaumað KA-merki í litum og mamma saumaði það fast í íþróttabolinn minn.  Aldrei hafði ég séð fallegra merki og stoltur sýndi ég systkinum mínum það og þau gátu heldur ekki leynt aðdáun sinni.  En pabbi lét sér fátt um finnast, þagði og horfði í aðra átt enda innvígður Þórsari. Hann sagði þó ekki orð og heimilsfriðurinn var tryggður. Mikilvægur þáttur í þeirri friðargjörð var trúlega sú staðreynd að unirritaður hélt áfram að styðja Þór í fótbolta. Sumir sögðu - og segja enn - að það sé mikil tilætlunarsemi að reyna að fá aðra til að skilja þann furðulega tvískinnung að vera í KA en halda með Þór!

Ingólfur Sverrisson  


Athugasemdir

Nýjast