Franz segir að boranir hafi gengið mjög vel, en alls voru boraðar fimm rannsóknarholur, dýpt þeirra var frá 7 metrum og upp í 17 metra en dýptin ræðst af aðstæðum á hverjum borstað. Franz segir að allar holurnar hafi verið fóðraðar með götuðum plaströrum og þeim síðan lokað. Hægt verði að nýta þær holur sem nú voru boraðar sem vinnsluholur, þegar og ef vinnsla hauggass hefst.
„Næsta skrefið er að gera mælingar á gasmagni, samsetningu gassins og fleira, en þær verða gerðar í lok þessa mánaðar þegar holurnar hafa jafnað sig. Það er þó ljóst að gas er að finna í öllum holunum," segir Franz. Mannvit, verkfræðistofa, annast þessar rannsóknir og er þess vænst að niðurstöður liggi fyrir í maí eða júnímánuði næstkomandi.
Kostnaður við borunina nú er um þrjár milljónir króna og segir Franz að kostnaður við aðrar rannsóknir sem gera þurfi í kjölfarið verði að minnsta kosti álíka mikill. Enn er í gildi viljayfirlýsing milli Akureyrarbæjar og fyrirtækisins Strokks Energy sem kannar möguleika á að reisa koltrefjaverksmiðju á svæðinu og nýta hauggas til orkuöflunar.
„Þar á bæ er að því er ég best veit verið að vinna að málinu af fullum krafti hver svo sem niðurstaðan verður. Önnur nýting er auðvitað í skoðun líka án þess að nokkuð liggi fyrir um hana á þessu stigi," segir Franz.