Gamla fréttin: Morðtilraun á Akureyri

Myndin er skjáskot úr bresku kvikmyndinni Hysteria frá árinu 1965 og tengist fréttinni ekki neitt.
Myndin er skjáskot úr bresku kvikmyndinni Hysteria frá árinu 1965 og tengist fréttinni ekki neitt.

Gamla fréttin er að þessu sinni úr Alþýðublaðinu sáluga og birtist í 89. tölublaði þann 21. Apríl 1965 og segir frá morðtilraun á Akureyri.

Akureyri, 20. apríl. — GS-GO.

MORÐTILRAUN var gerð hér skömmu eftir miðnætti aðfaranótt föstudagsins langa. Maður réðist að konu með hníf að vopni. Var hann þá nýbúinn að hóta henni lífláti.

Konunni tókst að grípa utan um hnífsblaðið og hélt fast. Við það skarst hún mikið á hendi, en manni, sem þarna var nærstaddur, gafst ráðrúm til að skerast í leikinn og réðst hann að árásarmanninum. Ellefu ára gamall sonur konunnar komst út og náði í lögregluna, sem kom mjög bráðlega og tók árásarmanninn í sína vörzlu.

 Athurður þessi átti sér stað í  íbúð konunnar, sem er þýzk að þjóðerni, en hefur verið búsett á Akureyri um árabil. Maðurinn, sem skarst í leikinn, er fyrrverandi eiginmaður hennar, en hann kemur oft á heimili hennar til að heimsækja börn sín. Þetta kvöld sat hann yfir börnunum á meðan móðir þeirra var í fermingarveizlu.

Árásarmaðurinn er Dani, sem búið hefur á Akureyri í þrjú ár. Hefur hann verið til húsa hjá konunni í nokkurn tíma. Um kvöldið tilkynnti hann eiginmanninum fyrrverandi að hann myndi ekki sjá konuna aftur. Og þegar hún kom heim skömmu eftir miðnætti réðist hann umsvifalaust á hana með sveðju að vopni. Eins og fyrr segir tókst henni að grípa um blaðið og skarst hún mikið á hendi og var flutt á sjúkrahús og gert að sárum hennar þar. Hjónunum fyrrverandi tókst í sameiningu að koma árásarmanninum út og læsa á eftir honum og var hann enn á tröppunum, þegar lögreglan kom og handtók hann. Hann situr nú í gæzluvarðhaldi. /EPE

Nýjast