Gagnrýni á Eyrarsundið mest áberandi á kynningarfundi

Hann var þétt setinn bekkurinn í Brekkuskóla þegar þar fór fram kynning á nýju deiliskipulagi austurhluta miðbæjarins á Akureyri á dögunum. Talið er að um 230 manns  hafi verið í salnum þegar mest var. "Mér hefur alltaf fundist ánægjulegt hversu vel Akureyringar sækja svona borgarafundi og láta sig málin varða, það er óskaplega mikilvægt fyrir okkur," segir Sigrún Björk Jakobsdóttir forseti bæjarstjórnar og formaður stýrihópsins vegna miðbæjarskipulagsins.  

Á fundinum kynntu bæjaryfirvöld, skipulagshönnuðir frá Greame Massie Architects og aðrir ráðgjafar skipulagstillögunina og svöruðu fyrirspurnum. Sigrún Björk var ánægð með fundinn - umræður og fyrirspurnir hafi verið góðar og menn skiptust óhikað á skoðunum. "Mér fannst flestir vera ánægðir með heildarhugmyndina sem liggur að baki skipulaginu, í prinsippinu snýst þetta um hvar við ætlum að byggja upp til framtíðar hér í bæ - ætlum við að byggja upp hótel og mögulega aðra íbúðabyggð, verslun og þjónustu í miðbænum eða í útjaðri bæjarins, eins og Jóhannes Árnason fulltrúi VG í stýrihópnum orðaði það svo ágætlega á fundinum," sagði Sigrún Björk.

Hún sagði að ríkt hafi mikill einhugur og þverpóltísk sátt um þetta verkefni í stýrihópnum. "Því fannst mér dapurlegt þegar bæjarfulltrúar VG í bæjarstjórn studdu ekki sinn mann og höfnuðu því að setja skipulagið í auglýsingu. Við erum að horfa í þessu skipulagi til mjög langs tíma og viljum einfaldlega vera reiðubúin þegar efnhagslífið tekur við sér á nýjan leik og eiga lóðir og svæði til uppbyggingar á besta stað við þjóðveg 1. Viljayfirlýsing frá Icelandair um hóteluppbyggingu er mikilvægur áfangi á þessari leið. Fyrirhugaðar breytingar á Glerárgötunni mun skipta miklu máli við að ná fram nýjum áherslum á að gera umhverfið mannvænlegra og meira aðlaðandi fyrir gangandi vegfarendur og ég held að það muni skipta sköpum fyrir miðbæinn okkar," sagði Sigrún Björk.
Gagnrýni á Eyrarsundið (síkið) var mest áberandi, að sögn Sigrúnar Bjarkar. Fólk hefur áhyggjur af straumi og vatnaskiptum í því og að þetta verði einhver staðnaður pollur. Eins er kostnaður við gerð Eyrarsundsins töluverður og því er eðlilegt að menn staldri við það. "Bílastæðamálin og fækkun þeirra eru líka mál sem fólk hefur áhyggjur af en flestum kemur engu að síður á óvart að það séu ríflega 1000 bílastæði á miðbæjarsvæðinu."

Eftir fundinn fóru um 20 manns í göngutúr niður á miðbæjarsvæðið, þar sem fólk gat betur séð þessar breytingar fyrir sér. "Það er eitthvað sem við munum endurtaka og bjóða uppá aftur fljótlega og þá væri gaman að sjá meira af ungu fólki taka þátt - fólkinu sem mun byggja þennan bæ næstu áratugina," sagði Sigrún Björk.

Nýjast