Gagnrýna umræðu um vímuefnaneyslu
Stjórn Hugins, nemendafélagsins í Menntaskólans á Akureyri, vill koma á framfæri sjónarmiði nemenda vegna fréttar sem Vikudagur birti nýrverið um drykkju unglinga á Akureyri. Í fréttinni kom fram að foreldrar nemenda skólans hafi áhyggjur af vaxandi drykkju ungmenna í 1. og 2. bekk skólans og aukinnar notkunar á Mollý. Heitar umræður spruttu upp í kjölfarið á samfélagsmiðlunum.
Nýlega hefur það verið í umræðunni að drykkja nemenda í framhaldsskólum á Akureyri sé að færast í aukana og sömuleiðis að unglingar séu sumir hverjir farnir að nota fíkniefnið Mollý. Í frétt sem birtist á Pressunni segir foreldri nemanda í 1. bekk í MA að hún taki eftir töluverðri drykkju unglinga á þessum aldri. Þá talar hún um sameiginlega hittinga nemenda á 1. og 4. ári.
Þessir hittingar hafa verið haldnir í fjöldamörg ár. Síðustu ár hafa þessi partí ekki verið vel liðin meðal foreldra og var þá gripið til ýmissa ráða til að reyna að fækka þeim. Eitt af því var að nemendur á 4. ári ákváðu að láta foreldra nemenda á 1. ári alltaf vita þegar slík partí voru haldin. Þetta hefur verið gert núna allt síðasta ár við góðar undirtektir foreldra.
Mörgum foreldrum finnst eftirlitslausum hittingum þó vera að fjölga, en okkar reynsla af þessu er önnur. Þessir hittingar hafa nefnilega verið í algjöru lágmarki þetta skólaárið og ekkert alvarlegt mál hefur komið upp tengt þeim. Enda vita foreldrar ef slík partí eru haldin og það er auðvitað rétt sem Anna Hildur bendir á að foreldrar bera ábyrgð á börnunum.
Okkur finnst líka ekki rétt að tala um skólana í þessu samhengi. Þetta kemur þeim í raun lítið við. Allir viðburðir sem eru haldnir á vegum skólans eru áfengis- og vímuefnalausir, enda hefur MA lengi verið þekktur fyrir það. Þetta tengist frekar aldrinum. Á þessum aldri eru unglingar forvitnir, það er á þessum tímapunkti sem unglingar fara að prófa áfengi og sumir kannski eitthvað annað.
Það sem er þó kannski einkennilegast við þessar staðhæfingar er að þær eru í þveröfuga átt við þá þróun sem rannsóknir á nemendum sýna. Niðurstöður þeirra eru þær að drykkja nemenda í MA sé að minnka, og enn frekar notkun fíkniefna. Þó við séum bara átta í stjórn skólafélagsins, komum við öll úr ólíkum hópum svo við höfum tengingar inn í nánast allt sem fram fer bæði innan og utan veggja skólans. Við getum fullyrt að ekkert okkar hefur orðið vart við aukna drykkju, og hvað þá notkun á Mollý. Við erum öll sammála um það að okkur finnist drykkja einmitt vera í minni mæli nú en undanfarin ár og því þykir okkur miður að foreldrar séu á öðru máli.
Við getum auðvitað ekki fullyrt enginn í MA noti Mollý, en að það sé töluverð notkun á efninu meðal nemenda er eitthvað sem á sér enga stoð. Það er þó án efa vert umhugsunarefni að fræða þurfi unglinga betur um þessi efni, þar sem margir telja þau valda mun minni skaða en þau gera."
Bestu kveðjur f.h. Hugins
Valgeir Andri Ríkharðsson