Gagnrýna skerðingu bæjarins á húsnæðisbótum

Akureyri. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyri. Mynd/Hörður Geirsson.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt reglur um sérstakan húsnæðisstuðning með þeirri breytingu að lágmarksgreiðslubyrði verði 40.000
kr. í stað 50.000 kr. og að reglurnar taki gildi frá og með 1. apríl nk. Þetta var samþykkt með sjö atkvæðum en Gunnar Gíslason og Þórhallur Jónsson hjá D-lista greiddu gegn tillögunni og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Hlynur Jóhansson hjá Miðflokknum sátu hjá.

Gunnar Gíslason og Þórhallur Jónsson lögðu fram bókun þar sem þessari skerðingu er mótmælt. „Við getum ekki samþykkt þá tillögu sem liggur fyrir bæjarstjórnarfundi í dag þar sem hún felur í sér skerðingu á ráðstöfunartekjum hjá 81 einstaklingi, sem hafa lágar ráðstöfunartekjur fyrir og ekki er gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum til þess að draga úr þessum skerðingum.“

Gunnar Gíslason gagnrýnir þetta í samtali við Vikudag en bætur til einstaklinga skerðast um rúmlega 38 þúsund á ári. „Bærinn er að hækka álögur á hóp sem hefur minnst á milli handanna. Þótt þessar skerðingar á ráðstöfunartekjum séu ekki stórar upphæðir fyrir þá sem hafa nóg á milli handanna munar þetta um minna fyrir það fólk sem fyrir skerðingunni verður. Ég skil ekki tilganginn með þessari ákvörðun enda kostar það bæinn ekki meira en þrjár milljónir á ári að sleppa þessari skerðingu,“ segir Gunnar Gíslason


Athugasemdir

Nýjast