Þegar ferð er í undirbúningi er sendur tölvupóstur á tengiliðina á viðkomandi svæði og þörf þeirra fyrir eyðingu gagna könnuð. Ferðin er síðan skipulögð út frá svörum sem berast. Þessi tilraun hefur komið mjög vel út, að sögn Sæmundar Hólmars Sverrissonar rekstrarstjóra og greinilegt að þörfin fyrir eyðingu gagna er víða, líka á einstökum heimilum og sveitabæjum.
Í dag er eyðing trúnaðarskjala faggrein og er Gagnaeyðing alþjóðlega vottað til eyðingar trúnaðarskjala og búnaðar sem hefur að geyma rafræn gögn. Aðstaða Gagnaeyðingar er í 700 fermetra iðnaðarhúsnæði í Grafarvogi sem er búið fullkomnu öryggis- og eftirlitskerfi og vinnslulínan alsjálfvirk. Þegar viðskiptavinur kemur með gögn til eyðingar eru þau afhent í sérstöku móttökurými og vigtuð þar. Viðskiptavinurinn fær afhenta móttökukvittun fyrir gögnunum sem er undirrituð af báðum aðilum og hefur eftir það engan aðgang að gögnunum. Í þeim tilfellum sem hann vill fylgjast með eyðingunni, þá getur hann það um myndavélakerfi, en 9 upptökuvélar eru í gangi 24 tíma sólarhrings að kröfu vottunaraðilans.