Fyrsta sjónvarps á Íslandi minnst
Háskólinn á Akureyri í samstarfi við Akureyrarbæ og Ásprent Stíl hyggst setja upp sérstaka söguvörðu ofan við Barðsgil á Eyrarlandsvegi í dag, mánudag kl. 16:00. Tilefnið er að um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að fyrst var horft á sjónvarp á Íslandi og það var einmitt gert hér á Akureyri. Það voru þeir Grímur Sigurðsson síðar útvarpsvirkjameistari og F.L. Hogg breskur verkfræðingur sem kom hingað á vegum Arthurs Gook sem þetta gerðu og notuðu að hluta til tæki sem þeir höfðu fengið frá Bretlandi og að hluta tæki sem þeir smíðuðu sjálfir.
Fjölmiðlafræðideildin við Háskólann á Akureyri gengst af þessu tilefni fyrir ráðstefnu í dag undir yfirskriftinni Tjáningarfrelsi og félagsleg ábyrgð kenningar og útfærsla þar sem innlendir og erlendir fræðimenn munu vera með erindi. Ráðstefnunni lýkur með því að söguvarðan um fyrsta sjónvarp á Íslandi verður afhjúpuð.