18 - 25 september - Tbl 38
Fyrsta ráðstefnan um álfa og huldufólk sem haldin er hér á landi
„Það eru mörg áhugaverð og spennandi erindi á dagskrá og við finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Bryndís Fjóla Pétursdóttir sem rekur félagið Huldustíg ehf. á Akureyri sem ásamt fjölmörgum öðrum efnir til ráðstefnum um álfa og huldufólk í Menningarhúsinu Hofi 20. apríl næstkomandi. Þetta er fyrsta ráðstefna sinnar tegundar hér á landi. Fjölmargir fyrirlestrar eru á dagskrá auk þjóðlegra skemmtiatriða inn á milli. Nauðsynlegt er að kaupa miða á ráðstefnuna fyrir fram því fjöldi þátttakenda takmarkast við 90 manns.
Bryndís Fjóla segir undirbúning í höndum þeirra sem þátt taki í ráðstefnunni, en þeir hafi unnið mikið og óeigingjarnt starf við að undirbúning sinna erindi, aflað heimilda og unnið úr þeim.
Þjóðin haft yndi af því að segja sögur
„Þjóðarmenningin okkar hefur litast af frásagnargáfu bæði í ræðu og riti og við þurfum að vera duglega að halda þessari gáfu við,“ segir Bryndís Fjóla. Lífið verði áhugaverðara og dýpra með fleiri víddir og þær upplifanir sem við njótum í formi listar af ýmsu tagi. Hún nefnir að þær heimildir sem til umfjöllunar verða á ráðstefnunni séu einstakar á heimsvísu. Það sé táknrænt að ráðstefnan fari fram á Norðurlandi en í þeim landsfjórðungi eru flestar ritaðar heimildir að finna um álfa og huldufólki.
Samstarf við söfn og skóla
Þegar undirbúningur ráðstefnunnar hófst fór af stað samstarf við bæði söfn og grunnskóla á svæðinu. Minjasafnið, Listasafnið og Amtsbókasafnið styðja ráðstefnuna með framlagi til heimildasöfnunar, m.a. verða í boði myndlistarsýningar, listasmiðjur og þemadagar þar sem fjallað verður um álfa og huldufólk. Þegar hefur verið opnuð myndlistarsýning barna á Amtsbókasafninu sem ber heitið Huldufólk og þjóðsagnaverur. Þar sýnir 1. bekkur í Glerárskóla listaverk sem sköpuð voru eftir heimsókn í Lystigarðinn þar sem Bryndís Fjóla tók á móti þeim og sagði frá hulduheimum. Næsta sunnudag, 14. apríl stendur Huldustígur fyrir listasmiðjunni: Lifandi náttúra í samstarfi við listakonuna Rakel Hinriksdóttur. Þá má nefna að myndlistarsýning verður sett upp í Hofi, en þar er um að ræða myndlistasýningu nemenda í Brekkuskóla og verður sett upp í tengslum við Barnamenningarhátíð og ráðstefnuna um álfa og huldufólk. Hún nefnist Hulduverur og verður opin frá 19. apríl til 29. apríl.
Tengsl okkar við náttúruna hafa dofnað
„Mér þykir nauðsynlegt að öll börn á Íslandi fái jafna túlkun og fræðslu um okkar óáþreifanlega menningararf og hvar og hvernig hann birtist. Einnig þau sem setjast hér að og hafa ekki aðgang að ættingjum sem geta upplýst þau eins og t.d. nemendur af erlendum uppruna. Trú okkar Íslendinga á álfa og huldufólk er mikilvægur þjóðar- og menningararfur og nú sem aldrei fyrr er brýnt að halda þessari arfleifð á lofti og viðhalda henni,“ segir Bryndís Fjóla. Tengsl okkar við náttúruna hafa dofnað og þar með vitund okkar um álfa og huldufólk. Eldri kynslóðir hafi skynjað náttúruna með öðru hætti og voru í betri tengslum við hana. Meirihluti núverandi Íslendinga af yngri kynslóð býr í þéttbýli þar sem sótt er á græn svæði, allir eru uppteknir af tækninni og jafnvel þegar verið að njóta útivistar kjósa margir að hafa tónlist eða annað í eyrunum á ferð sinni. „Við þetta glatast smám saman hæfileikinn til að finna fyrir náttúrunni og það er miður.“
Ráðstefnan er styrkt af SSNE, Akureyrarbæ, Vegagerðinni, AkureyrarAkademíunni og Fjord. Miðaverð er hagstætt og innifalið í því eru veitingar meðan á ráðstefnu stendur. Áhersla er lögð á að möguleika á góðum samræðum í matar- og kaffihléum sem og í lok ráðstefnunnar.
Öll erindi verða flutt á íslensku og fjalla um álfa og huldufólk og þær íslensku heimildir sem til eru um þær. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Inga Lísa Middleton myndlista- og kvikmyndagerðarkona, búsett í London, en hún fjallar í sínu erindi um huldufólk og álfa, áhrif þeirra á listsköpun í landinu og mikilvægi þess að halda sögu þeirra lifandi í gegnum listir. Erindi eru um brautryðjendur og verk þeirra Erlu Stefánsdóttur sjáanda og Margréti frá Öxnafelli. Ýmsar óbirtar heimildir verða til umfjöllunar frá náttúrufræðingnum Helga Hallgrímssyni. Skólastjórnandinn Hrund Hlöðversdóttir stígur á stokk með mjög áhugavert erindi, og einnig leiðsögukonan Sólveig Bennýar og sjándinn Eygló Jóhannesar.
Hrund Hlöðversdóttur flytur erindi sem nefnist: Eru álfheimar við hliðina á þér?
Bryndís Fjóla Pétursdóttur rekur fyrirtækið Huldustígur sem ásamt fleirum hefur unnið að undirbúningi ráðstefnu
um álfa og huldufólk sem er hin fyrsta sinnar tegundar hér á land
Ingunn Sigmarsdóttur þjóðfræðingur og grunnskólakennara fjallar um huldufólksbyggðir og álagabletti til forna
og áhrif þeirra á byggingaframkvæmdir sem enn eru í gangi í okkar heimabyggð.
Athugasemdir