Fyrsta fermingin í Húsavíkurkirkju

Fermingarkrakkarnir með Sólveigu Höllu. Efst frá vinstri; Kári Steinn Valdimarsson, Sævar Örn Guðmun…
Fermingarkrakkarnir með Sólveigu Höllu. Efst frá vinstri; Kári Steinn Valdimarsson, Sævar Örn Guðmundsson, Guðrún Helga Sörensdóttir. Neðri röð; Agnar Kári Sævarsson, Fannar Ingi Sigmarsson og Gestur Aron Sörensson.

Fyrsta ferming vorsins 2020 í Húsavíkurkirkju fór fram laugardaginn 20. júní. Alls sex ungmenni fermdust þennan dag en einnig verða tvær fermingar í lok ágústmánaðar. Helgihald féll eðlilega niður að miklu leyti í kjölfar samkomubanns, en reglulega voru sett á Fésbókarsíðu kirkjunnar myndbönd þar sem birtust morgunbænir, helgistundir og orgeltónar á tímabilinu til uppbyggingar sóknarbörnum sem mörg hver nýttu sér tæknina.

Útförum var streymt frá heimasíðu kirkjunnar eða á lokuðum síðum eftir óskum aðstandenda. Þann 17.júní var guðsþjónusta í kirkjunni og sú nýbreytni var í boði að svokallað ,,barnahorn“ var sett upp, þar sem börnin gátu púslað, skoðað bækur, litað eða teiknað. Ræðumaður var Hjálmar Bogi Hafliðason og gerði hann sjötíu ára afmæli Húsavíkurkaupstaðar góð skil í ræðu sinni. Kirkjukórinn söng við undirleik Steinunnar Halldórsdóttur og sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir þjónaði og börnin sungu fyrir kirkjugesti og leiddu bænastundina með prestinum.

Helgistund á Hvammi

Séra Sólveig Halla fékk að koma á Dvalarheimilið Hvamm með helgistund þann 7. júní, en þá voru liðnir nákvæmlega þrír mánuðir frá því helgihald hafði verið þar sökum samkomubannsins. „Það var ánægjulegt að hittast á ný og eiga góða stund, það er mikilvægt að við gefum okkur tíma til að spjalla og njóta samveru um leið og við förum varlega og fylgjum fyrirmælum varðandi sóttvarnir og forðumst smithættu. Það er óskandi að sumarið verði okkur gott með mörgum gleði- og samverustundum,“ segir Sólveig Halla.  


Athugasemdir

Nýjast