Fyrsta barn ársins á Akureyri er myndarleg stúlka

Fyrsta barn ársins á Akureyri, myndarleg stúlka, fæddist á fæðingadeild FSA kl. 07.26 á nýársdagsmorgun. Hún reyndist vera tæpar 12 merkur og 49 cm. Stúlkan hefur fengið nafnið Karolína Lara, foreldrar hennar eru frá Slóvakíu en hafa búið á Akureyri undanfarin ár og er þetta fyrsta barn þeirra.  

Faðirinn, Michal Kobezda, kom til Akureyrar fyrir um fimm árum, til að leika í markinu hjá íshokkíliði Skautafélags Akureyrar. Móðirinn heitir Michaela Jordanova og hún sagði að fæðingin hafi gengið vel. Þær mæðgur voru hinar hressustu og fóru heim af spítalanum í morgun. Tvö börn hafa komið í heiminn á FSA frá áramótum en skömmu fyrir kl. 15 á nýársdag fæddist önnur myndarleg stúlka.

Alls fæddust 438 börn á árinu 2008 á Sjúkrahúsinu á Akureyri og þar af voru fjórar tvíburafæðingar. Þetta eru heldur færri börn en árið 2007 en þá fæddust 450 börn á sjúkrahúsinu.

Nýjast