Kristinn segir að þegar málningardeild Sjafnar var sameinuð Hörpu, hafi verið stofnað sér fyrirtæki um gólfefnadeild Sjafnar, sem hann og Stefán Hermannsson svo keyptu. Þeir eru báðir stórir hluthafar í Gólflausnum Mallandi. Kristinn hafði starfað hjá Sjöfn í tæp 30 ár og Stefán Hermannsson hafði unnið sem verktaki hjá Sjöfn í á þriðja áratug.
Gólflausnir Malland voru til húsa í Sjafnarhúsinu á Akureyri en fluttu fyrr á þessu ári í nýtt 230 fermetra húsnæði að Njarðarnesi 10 og þar starfa að jafnaði fjórir starfsmenn. Í Reykjavík er starfsemin í 800 fermetra húsnæði í Lágmúla 7 og þar starfa 11-15 manns. "Ég hef ekki í hyggju að flytja suður og því er fyrirkomulagið með þessum hætti, ég er að jafnaði 3 daga í viku í Reykjavík en annars hér fyrir norðan," segir Kristinn.
Hann sagði að fyrirtækið væri í samstarfi við stóra erlenda birgja, m.a. Playtop í Bretlandi og Hesselberg í Noregi. Helstu söluvörur fyrirtækisins eru iðnaðargólf, eins og steinteppi og gólfefni fyrir verslanir, skrifstofur, stofnanir og íbúðir. "Einnig erum með gúmmígólf, sem notuð eru t.d. við sundlaugar og leikvelli barna. Þá erum við með viðhaldskerfi fyrir dúka, parkett og flísar í stofnunum, sem kemur í staðinn fyrir bón. Við höfum verið með þetta viðhaldskerfi í þrjú ár og það hefur komið vel út, m.a. hjá Fasteignum Hafnarfjarðar og Landspítalanum. Þessir aðilar eru að snúa sér alfarið að þessu kerfi og hætta um leið að bóna og bónleysa. Sjúkahúsið á Akureyri er einnig með þetta kerfi til reynslu á Kristnesi."
Eiga í fyrirtæki í Póllandi
Kristinn segir að fyrirtæki sitt fylgi byggingaiðnaðinum og þegar dregst saman í þeim geira, hafi það áhrif hjá þeim. "Við þurfum því að leita leiða til að halda okkar styrk og okkar mannskap og möguleikarnir liggja í því að leita eftir verkefnum erlendis, jafnhliða því að sinna þeim verkefnum sem eru í boði hér heima. Það liggur fyrir að förum í 2.000 fermetra gólf í fiskiréttaverksmiðju í Frakklandi nú í desember. Við förum í verkefni í Svíþjóð í janúar en þar er um ræða 2.000 fermetra gólf í matvælavinnslufyrirtæki og einnig horfum við til verkefna í fleiri löndum, t.d. Noregi. Þá eigum við 50% í fyrirtæki í Póllandi, Malland Polska og þar vinna allt að þrír starfsmenn. Þar í landi sjáum við fram á verulega aukningu."
Kristinn segir að reksturinn hafi gengið vel frá upphafi, enda hafi verið mikil þennsla í gangi hér á landi. "Það höfðu allir nóg að gera fram í september sl. þegar slökkt var á nánast öllu. Það eru þyngri tímar framundan og því liggja okkar möguleikar erlendis, þar til hjólin farin að snúast hér á landi af fullum krafti á ný," sagði Kristinn.