Fyrirspurnum um kaup og kjör fjölgar mjög hjá Einingu-Iðju

Álag á skrifstofur Einingar Iðju var mikið á liðnu ári, einkum og sér í lagi vegna þess mikla atvinnuleysis sem ríkjandi hefur verið og vandamála sem af því leiðir.  Sem dæmi má nefna að alls hafa veirð skráð 18.762 símtöl á skrifstofur félagsins síðastliðna 12 mánuði, eða 1.564 á mánuði, tæplega 80 símtöl á dag að meðaltali alla virka daga þegar opið er á skrifstofunni.  

Í lok árs 2009 voru 450 félagsmenn Einingar-Iðju á atvinnuleysisskrá, þ.e. þeir sem létu draga félagsgjöld af atvinnuleysisbótunum, en alltaf er eitthvað um að fólk láti ekki draga af sér slík gjöld þegar það er atvinnulaust.

Á aðalfundi félagsins í gærkvöld kom fram að starfsfólk sé önnum kafið við að svara fyrirspurnum um  kaup og kjör. Slíkum fyrirspurnum hefur fjölgað mjög undanfarin ár og er greinilegt að fólk er áhugasamara nú en áður um rétt sinn. Einkum hefur ungt fólk verið duglegt að láta í sér heyra og telur Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju að samhengi sé milli þess og fræðslustarfi félagsins, en það hefur beitt sér fyrir fræðslu meðal tíundubekkinga í grunnskólum á Eyjafjarðarsvæðinu og í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Þá hefur mikið mætt á á lögfræðingum félagsins bæði varðandi launakröfur, gjaldþrot og aðstoð við starfsmenn félagsins við að túlka samninga. Einnig eru þeir með nokkuð mörg mál í gangi varðandi innheimtu á félagsgjöldum hjá fyrirtækjum.

Nýjast