Fyrirlestur um ferð Evu Braun til Íslands 1939

Hörður Geirsson, safnvörður og ljósmyndari á Minjasafninu á Akureyri, heldur opinn fyrirlestur þann 12. apríl nk. um ferð Evu Braun til Íslands í júlí 1939. Fyrirlesturinn er á vegum námsbrautar í safnafræði við Háskóla Íslands og verður í haldinn í stofu 206 í Odda milli kl. 12 og 13. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.  

"Í júlí 1939, rétt áður en seinni heimsstyrjöldin skall á, kom Eva Braun, seinna eiginkona Adolf Hitlers, til Íslands með skemmtiferðaskipinu Milwaukee. Á þeim tíma vissu fæstir af sambandi hennar við Hitler svo hún gat ferðast um allt óáreitt og óþekkt. Í þessari ferð tók hún talsvert af kvikmyndum sem hafa ekki verið sýndar oft hér á landi. Nálgun mín í þessu erindi verður útfrá þrem konum sem voru um borð í skemmtiferðaskipinu Milwaukee. Eina þeirra, Edith Gartner, hitti ég árið 1996 og tók við hana viðtal. Einnig var um borð Elisabeth Dick, ljósmyndari sem var á vegum KdF. Voru ljósmyndir hennar notaðar í bók sem heitir "Nordische Farbenwunder Eine Fahrt ins Reich der Mitternachtssonne mit 35 prachtvollen Photos von der Autorin auf Agfacolor." Mun ég nota kafla úr bókinni til að sína þann hugsanagang sem var á þessum tíma ríkjandi í Þýskalandi nasismans varðandi Aria kynstofninn og Þúsund ára ríkið. Auk þessara kvenna verður aðeins fjallað um örlög skipsins Milwaukee og þá arfleifð sem vinnuveitandi Evu Braun, Heinrich Hoffman einkaljósmyndari Hitlers hefur skilið eftir í áróðursljósmyndun," segir Hörður m.a. í tilkynningu um fyrirlesturinn.

Hörður leitaði að breskri Fairey Battle flugvél í 19 ár og fann hana 1999 og hefur á síðustu 10 árum staðið fyrir björgunarleiðöngrum til að bjarga líkamsleifum mannanna úr flugvélinni af jökli til greftrunar.Hörður hefur verið stundakennari við Háskólann á Akureyri og kennt ljósmyndasögu undanfarin 5 ár. Hann hefur starfað á ljósmyndadeild Minjasafnsins á Akureyri frá 1985, þar sem safnkosturinn er 2,5 milljónir ljósmynda og hefur unnið að sýningum safnsins á hverju ári.  Hörður hefur verið Formaður áhugaljósmyndaklúbbsins ÁLKA á Akureyri frá 2005 og með hléum áður. Hann kom að stofnun Flugsafns Íslands á Akureyrarflugvelli og unnið sýningar í safnið á hverju ári frá því það var stofnað árið 2000.

Hann hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og unnið útvarpsþætti um flugsögu, auk þess haldið fyrirlestra um ljósmyndun og ljósmyndasögu.  Hörður hefur haldið nokkrar ljósmyndasýningar, m.a. einkasýningu í Listagilinu á Akureyri 2008 og átt fjölda ljósmynda í blöðum og bókum.

Nýjast