Þeir hittust á Húsavík á dögunum, gömlu félagarnir Bjarni Hafþór Helgason frá Grafarbakka og Kristján Svavarsson úr Vegamótum og var auðvitað menningarviðburður. Kristján býr enn á staðnum en Hafþór brotthlaupinn þaðan fyrir alllöngu.
Sá síðarnefndi var að heimsækja ættingja í bænum og gerði í leiðinni boð fyrir félaga Kristján til af afhenda honum mikinn kjörgrip, eintak af tveggja laga plötu hljómsveitarinnar Skriðjökla frá árinu 1986 sem ber það pönkaða nafn „Manstu eftir Berlín bollan ðín.“
Kristján hefur í áratugi verið ötull plötusafnari og lengi haft úti spjót til að eignast þessa plötu sem hefur nánast frá útgáfudegi verið ófáanleg, enda stendur á plötuumslaginu: Ath: Plötu þessa má alls ekki selja! Við þessa frómu yfirlýsingu stóðu Skriðjöklar og gáfu gripinn flestum sem hafa vildu og sögðust enda hafa verið að gefa plötuna út, ekki selja hana út.
Kristján hafði lengi verið að nudda í félaga sínum að redda sér eintaki af plötunni, enda honum málið skylt, þar sem Bjarni Hafþór hafði samið annað lagið á plötunni, hið klassíska Tengja og annar góðkunningi Kristjáns, Arnar Björnsson, á textann með hinni ógleymanlegu hendingu sem er orðinn hluti af íslenskum menningararfi: Er ekki tími tilkominn að tengja?
Vandinn var að sá að Hafþór átti sjálfur ekki eintak og hafði ekki átt í áratugi. En fyrir nokkru brá hann á það ráð að leita og falast eftir plötunni á facebook og hafði upp úr því krafsinu heil þrjú eintök af þessum dýrgrip. Og að sjálfsögðu var eitt þeirra eyrnamerkt Kristjáni Svavarssyni.
„Mig er búið að dreyma um þessa stund í mörg ár.“ Sagði Kristján nánast klökkur þegar hann tók við þessu 45 snúninga bleika Skriðjökladýrindi úr hendi vinar síns Haffa. JS