Fundaði um dúxinn sem fékk ekki inngöngu í Háskólann á Akureyri

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík óskaði eftir fundi með rektor Háskólans á Akureyri og forseta viðskipta- og raunvísindasviðs skólans þegar í ljós kom að umsókn Davíðs Atla Gunnarssonar um nám við viðskiptadeild háskólans hafi verið hafnað. Davíð Atli dúxaði í fyrravor með einkunnina 9,38 við Framhaldsskólann á Húsavík og krefst Valgerður skýringa á því

Vikublaðið ræddi við Valgerði á þriðjudag eftir að hún hafði fundað með rektor Háskólans á Akureyri. „Ég hef verið í sambandi við rektor frá því að þetta mál kom upp á fimmtudag í síðustu viku. Svo fékk ég fund með rektor í morgun (þriðjudag). Þá var farið yfir þessi mál og ég auðvitað lýsti yfir óánægju minni með hvernig það væri hægt að hafna svona afbragðs nemanda en auðvitað var ég búinn að koma þeirri skoðun á framfæri í símtölum áður. Þarna fékk ég tækifæri til að gera það formlega,“ sagði Valgerður.

Að sögn Valgerðar var farið yfir stöðu Háskólans á Akureyri gagnvart framhaldsskólum, þeim reglum sem giltu hjá þeim og hvort þær væru raunhæfar og sanngjarnar. „Síðan gerði rektor grein fyrir því að háskólaráð myndi funda um  innritun og fleira á föstudag. Ég og aðrir sem á þessum fundi erum bundin trúnaði þangað til þeim fundi er lokið og tilkynning hefur komið frá Háskólanum á Akureyri,“ útskýrði hún en gat ekki upplýst frekar um það hvort ákvörðun háskólans um að hafna umsókn Davíðs yrði endurskoðuð.

Fréttin hefur verið uppfærð: Eftir samtal við  Sólveigu Maríu Árnadóttur, verkaefnastjóra markaðs og upplýsingamála hefur fyrirsögn fréttarinnar verið breytt. Fyrirsögnin gaf til kynna að háskólaráð myndi fjalla um mál Davíðs en ráðið hefur ekki heimild til að fjalla um einstaka mál nemenda. Efni fundarins sem hefst kl 10:00 á föstudag er um innritun vegna náms á haustmisseri 2020. Fréttatilkynning verður gefin út eftir að fundi líkur. 


Athugasemdir

Nýjast