Fundað um alvarlega stöðu í Grímsey
Miðvikudaginn 28. janúar næstkomandi, boðar Akureyrarkaupstaður til íbúafundar í Grímsey, í samstarfi við Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Markmið fundarins er að kalla eftir samtali íbúa, hagsmunaaðila og stofnana um stöðu og möguleika í sjávarútvegi og atvinnulífi í Grímsey. Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Múla og hefst kl. 16.30. Áætlað er að honum ljúki kl. 19.00.
Strax morguninn eftir, fimmtudaginn 29. janúar kl. 11.00, er boðað til blaðamannafundar vegna málsins í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þingmönnum kjördæmisins verður sérstaklega boðið á þann fund.
Á báðum fundum mun Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, skýra frá þeirri vinnu sem hann hefur leitt í viðræðum við útgerðir og stofnanir um leiðir til að renna styrkari stoðum undir sjávarútveginn í eyjunni. Þess ber að geta að ekki er komin niðurstaða í þá vinnu en framhaldið ætti að skýrast á næstu vikum.
Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, mun greina frá þeim leiðum sem Byggðastofnun hefur til stuðnings og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að hægt sé að beita þeim.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, skýrir frá afstöðu Akureyrarkaupstaðar og hvernig bærinn getur stutt við atvinnuuppbyggingu í Grímsey.
Grímsey er eitt tíu samfélaga sem sótt hafa um þátttöku í verkefni Byggðastofnunar í svokölluðum brothættum byggðum. Það verkefni er nú í biðstöðu vegna úttektar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og ekki hefur verið tekin ákvörðun um í hvaða röð þessir tíu staðir komast að. Vegna þeirrar óvissu sem upp er komin í Grímsey var það hins vegar sameiginleg niðurstaða Akureyrarkaupstaðar og Byggðastofnunar að efna til íbúafundar strax í stað þess að bíða þess að Grímsey komist að í verkefninu brothættar byggðir, segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.