Á hátíðarfundi bæjarstjórnar 29. águst 2012, á 150 ára afmæli bæjarins, var samþykkt samhljóma að verja allt að 500 milljónum í sérstakt umhverfisátak á næstu 5 árum, eða um 100 milljónir á ári
Framkvæmdaráði var falið að annast framkvæmdina.
Framkvæmdaráð leitaði m.a. til bæjarbúa um tillögur og komu yfir 400 tillögur. Var það framar björtustu vonum.
Voru tillögur íbúanna hafðar að leiðarljósi, þegar verkefnin voru valin og tókst það vel.
Einnig ákvað framkvæmdaráð að gefa hverfisnefndum tækifæri á að koma að verkefninu og var hverri nefnd úthlutað 2 milljónum til ráðstöfunar í sínu hverfi. Hverfisráð Hríseyjar og Grímseyjar fengu 1 milljón hvor.
Á framkvæmdaráðsfundi 3. Maí s.l. var samþykktur listi yfir þær framkvæmdir sem farið verður í 2013. Mun listinn á næstunni verða kynntur í heild sinni fyrir bæjarbúum, en hann má nálgast á heimasíðu bæjarins.
Við afgreiðslu tillagnana voru þær samþykktar með 3 atkvæðum fulltrúa L-listans.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn umhverfisátakinu.
Þeir greiddu atkvæði gegn því að hverfisnefndir bæjarins fengju ákveðna fjárhæð til verkefna í sínum hverfum.
Þeir greiddu atkvæði gegn endurbyggingu leiksvæða í hverfum bæjarins
Þeir greiddu atkvæði gegn framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Kjarnaskógi til að bæta aðstöðuna þar.
Þeir greiddu atkvæði gegn þvi að stígur yrði lagður á milli Hörgárbrautar og Hjalteyrargötu, norðan Glerár
Þeir greiddu atkvæði gegn því að gamla Glerárbrúin, neðan rafstöðvar verði lagfærð.
Þeir greiddu atkvæði gegn fjölgun setbekkja og rusladalla við göngustíga bæjarins.
Þeir greiddu atkvæði gegn áframhaldandi trjágróðursetningu í bæjarlandinu, í svokallaðan Græna trefil.
Þeir greiddu atkvæði gegn þvi að farið væri í lagfæringar á strandlengjunni frá Höfner og inn að Leirunesti, þar sem Nökkvi hefur aðsetur.
Fulltrúarnir bera fyrir sig í bókun að þeir séu ósáttir við vinnubrögð L-listans og geti því ekki samþykkt framkvæmdirnar þess vegna. Segjast vera samþykkir, en greiða atkvæði á móti. Það er skrítin pólitík.
Þrátt fyrir þessa andstöðu verður farið í þessi verkefni og bæjarbúar munu sjá mjög fljótt breytingar á bænum til batnaðar.
Oddur Helgi Halldórsson
bæjarfulltrúi L-listans og formaður framkvæmdaráðs