Á virkum biðlista eru 21 einstaklingur, af þeim eru 7 sem þurfa á sérhönnuðu húsnæði að halda og gæti húsnæði líkt og íbúðasambýlið við Geislatún verið heppileg lausn. Brýnt er að fljótlega liggi fyrir áætlun um hvernig mál þeirra sem eru á biðlista verði leyst. Önnu Marit var falið að leggja fram frekari gögn fyrir áætlunargerð. Ólafur Örn og Anna Marit kynntu einnig stöðuna í búsetuþjónustu geðfatlaðra. Fimm einstaklingar eru í mjög brýnni þörf fyrir sólarhringsþjónustu sem ekki er í boði í dag. Mat starfsmanna er að full þörf sé fyrir nýtt íbúðasambýli með sólarhringsvakt og góðri mönnun og að það þurfi að vinnast frekar hratt. Kanna má möguleikann á að nýta húsnæði sem bærinn á og færa til starfsemi til að mæta þessari þörf. Starfsmönnum búsetudeildar var falið að vinna í frekari áætlunargerð fyrir næsta fund ráðsins.
Þá ræddi Kristín Sigursveinsdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar um húsnæðismál skammtímavistunar. Nýtt húsnæði fyrir skammtímavistun er ekki á þriggja ára áætlun bæjarins 2012-2014. Mat Kristínar er að málið þoli ekki bið til ársins 2014 meðal annars vegna öryggissjónarmiða. Félagsmálaráð er sammála um að málið sé brýnt og var framkvæmdastjóra búsetudeildar falið að vinna áfram í málinu.