Frumsýning á nýju myndbandi við Húsavík
Myndband bresku hljómsveitarinnar Remember Monday, sem keppir fyrir hönd Bretlands í Eurovision 2025 var frumsýnt í Eurovision safninu á Húsavík í dag á sumardeginum fyrsta að viðstöddu fjölmenni. Myndbandið verður svo alheimsfrumsýnt á morgun, föstudag á miðlum BBC og Eurovision keppninnar.
Eins og greint hefur verið frá hefur keppendum í Eurovision í ár verið boðið að taka ábreiðu af lagi að eigin vali, sem svo verður birt á opinberum miðlum keppninnar. Remember Monday valdi lagið Húsavík, My Hometown og lýstu því sem sinni fyrstu ósk að fá að taka það upp á sjálfri Húsavík.
Húsavík í heimspressunni
Húsavík hefur gert það að hefð undanfarin ár að koma sér í kastljós heimspressunnar sem hinn fullkomni heimabær. Að sjálfsögðu alltaf með einhverja tilvísun í Eurovision. Fæðing Eurovisionbæjarins Húsavík hófst eins og flestir muna með gerð myndarinnar Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem Netflix framleiddi með stjörnum á borð við Will Farrel og var tekin upp að miklu leiti á Húsavík.
Þegar titillag myndarinnar, Húsavík, my hometown komst á skammlista (e. Shortlist) Óskarsakademíunnar tóku heimamenn sig saman, með Örlyg Hnefil Örlygsson í broddi fylkingar og bjuggu til röð skemmtilegra myndbanda til að kynna lagið og Húsavík um leið. Bragðið gekk fullkomlega upp, kynningarmyndböndin vöktu heimsathygli og Húsavík, my hometown hlaut verðskuldaða tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta lagið en það var Molly Sanden sem flutti það.
Húsavík á Óskarnum
Þar sem þetta var á tímum covid faraldursins kom fljótt í ljós að Molly Sanden gæti ekki stigið á svið og flutt lagið á sjálfri verðlaunaafhendingunni. Að sjálfsögðu kom þá ekkert annað til greina en að myndband við lagið yrði tekið upp þar sem þetta allt hófst; á Húsavík. Sú varð rauninn og enn á ný hlaut Húsavík heimsfrægð.
Nú ríflega fimm árum eftir að þetta ævintýri hófst hefur enn einn kaflinn verið birtur.
Breska hljómsveitin Remember Monday, sem keppir fyrir hönd Bretlands í Eurovision 2025, kom til Húsavíkur í byrjun mánaðarins til að taka upp myndband við sína eigin útgáfu af laginu Húsavík (My Hometown) í leikstjórn Rafnars Orra Gunnarssonar.
Stúlknakórinn í stóru hlutverki
Stúlknakór Húsavíkur sem hefur verið augað í þessum skemmtilega stormi frá upphafi var að sjálfsögðu enn í forgrunni enda var það fyrsta ósk bresku flytjendanna að hafa stelpurnar með í myndbandinu.
Hjálmar Bogi Hafliðason var fenginn til að hóa stúlknakórnum saman og sagði hann í samtali við Vikublaðið að það hafi verið auðsótt mál og reglulega gaman fyrir stelpurnar að taka þátt í þessu.
Heimabær Eurovision á Íslandi
„Þetta var reglulega skemmtilegt og gaman að upplifa þetta ævintýri aftur í fallegu veðri. Enn erum við að stimpla inn Húsavík sem miðpunkt Eurovision á Íslandi,“ sagði Hjálmar Bogi eftir að upptökum lauk og hrósaði stelpunum í hástert.
„Stelpurnar voru algjörlega frábærar, þær náttúrlega gerðu þetta svo vel síðast að þær voru mjög snöggar að ná þessu aftur, bara eins og þetta hafi verið gert í gær,“ sagði Hjálmar Bogi.
Verkefnið var unnið af Film Húsavík og Castor Miðlun fyrir BBC. Leikstjóri er Rafnar Orri Gunnarsson, tökustjórn annaðist Elvar Örn Egilssona og framleiðandi er Örlygur Hnefill Örlygsson.
Upptakan fór fram um borð í eikarbátnum Sylvíu í Húsavíkurhöfn.