Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA og hjónin Friðrik V. Karlsson og Arnrún Magnúsdóttir undirrituðu samninginn. Halldór sagði að eigendur Friðriks V hefðu staðið framarlega í kynningu á norðlensku hráefni og norðlenskri matargerð og það sé því ánægjulegt að þeir taki þátt í þessu verkefni með KEA. Friðrik veitingamaður sagðist þakklátur fyrir að fá að halda áfram með sögu hússins. Hann sagðist jafnframt þakklátur yfir að fá að halda uppi merki KEA, sem sé þekktasta vörumerki á svæðinu. Auk þess að efla starfsemi veitingastaðarins, ætla þau hjón Friðrik og Arnrún að opna verslun í húsinu, þar sem boðið verður upp á norðlenskt hráefni, ferskan fisk og fleira.
Við endurbætur á húsinu verður horft til þess að útlitið verði sem næst því upprunalega en í heildina verður gólfflötur hússins um 462 fermetrar. Ganga á rösklega til verks við breytingarnar og á þeim að vera lokið í lok júní. Eigendur Friðriks V stefna að því að opna í nýjum húsakynnum í kjölfarið. Gamla bögglageymslan, sem stendur við Kaupvangsstræti 6, hefur sett mikinn svip á Gilið og þar með bæjarmynd Akureyrar í heila öld. Húsið var byggt sem sláturhús en auk þess var þar m.a. rekið mjólkurbú, bögglageymsla, verslun og fleira. Líkt og með önnur hús í Gilinu var það byggt upp í kringum starfsemi KEA og hefur alla tíð verið í eigu félagsins.