Freyvangsleikhúsið sýnir Saumastofuna

Sena úr Saumastofunni
Sena úr Saumastofunni

Hvað gerist þegar sex konur slá upp afmælisveislu á vinnutíma, engri venjulegri veislu? Flóðgáttir opnast og í gamni og alvöru, gleði og söng segja þær sögur sínar. Meðan starfsfólk saumastofunnar ýmist segir og ekki síst syngur sögur sínar bregða hinar persónur leikritsins sér í gervi til að leika söguna sem verið er að segja hverju sinni. Inn í gamanið blandast svo umræðan um hlutverk kvenna í samfélaginu.

Þetta er efnið sem Freyvangsleikhúsið sníður úr á Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson, sem með leikritinu steig fram á kraftmikinn hátt sem leikskáld, ásamt því að leikstýra fyrstu uppfærslunni og semja lögin og söngtextana í verkinu. Leikritið og lögin slógu í gegn og urðu sýningarnar yfir 200 á þremur árum hjá Leikfélagi Reykjavíkur en síðan þá hefur leikritið verið sett upp víða um land við frábærar undirtektir.

Efniviðurinn var ekki valinn af handahófi. Árið var 1975, kvennaárið sem náði hámarki á kvennafrídaginn. Saumastofan er meðal annars þjóðfélagsádeila þar sem staða konunnar er þungamiðja leikritsins. Af hverju eru konur með lægri laun en karlar? Af hverju eru völdin í höndum karlmanna? Þessar spurningar brenna á konunum á Saumastofunni sem takast á við þær í tímalausu verki.

Saumastofan er 50. uppsetning Freyvangsleikhússins. Leikstjóri er Skúli Gautason en um tónlistarstjórn sér Helga Kvam. Leikmynd gerir Þorsteinn Gíslason og um búninga og leikmuni sér Anna Bryndís Sigurðardóttir. Leikhópinn skipa níu vaskir leikarar ásamt fjögurra manna hljómsveit.

Sýnt á föstudags- og laugardagskvöldum í mars og apríl.

Nýjast