Rætt hefur verið um mikilvægi þess að opnuð yrði starfsstöð Umboðsmanns skuldara á Akureyri. Bæjaryfirvöld hafa komið á framfæri formlegri ósk þar um. Enn hafa ekki borist svör og lýsir almannaheillanefnd yfir áhyggjum af stöðu mála þar sem brýn þörf virðist vera fyrir þjónustu Umboðsmanns á Akureyri. Einnig kom fram að aukning hefur orðið á fjárhagsaðstoð og var febrúarmánuður þyngri en áður hefur sést, fyrir utan jólamánuðinn. Vart hefur orðið við áberandi þreytu hjá starfsfólki félagsþjónustunnar. Í Rósenborg er áfram unnið að undirbúningi virkniseturs fyrir ungt fólk í samstarfi við Vinnumálastofnun. Hjá búsetudeild og heilsugæslustöð eykst álag hjá heimaþjónustu og heimahjúkrun vegna lokunar öldrunarrýna. Mikið er að gera hjá heilsugæslunni og álag eykst jafnt og þétt. Töluvert ber á því að fólk hafi ekki efni á komugjöldum. Hjá skóladeild er unnið að mögulegri hagræðingu í góðu samráði við foreldra og starfsfólk skóla. Vart hefur orðið við aukna skuldasöfnun hjá foreldrum skólabarna vegna leikskólagjalda, frístundar og skólafæðis. Nýting á fatamarkaði Rauða krossins hefur aukist mikið. Mæðrastyrksnefnd úthlutaði í desember til 450 einstaklinga og fjölskyldna. Í febrúar nutu 76 aðstoðar nefndarinnar.
Bæjarstjóri upplýsti á fundi almannaheillanefndar að Akureyrarbær hafi ákveðið að leggja 2 milljónir í hlutafjárframlag til endurreisnar skelræktar í Hrísey. Tekjur Akureyrarbæjar hafa verið að aukast m.a. vegna minnkandi atvinnuleysis. Þrátt fyrir fækkun öldrunarrýma hjá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar verður starfsfólki ekki sagt upp. Ýmis verkefni sem hafa áhrif á atvinnuástandið eru að fara í gang s.s. bygging hjúkrunarheimilis og gerð Vaðlaheiðarganga. Sveitarfélagið hefur unnið að atvinnumálum með ýmsum hætti og m.a. komið að fundum um atvinnumál. Stuðningur við ungt atvinnulaust fólk á Akureyri hefur vakið athygli.
Hjá félögum byggingarmanna eru nú erfiðustu atvinnuleysismánuðurnir. Stéttarfélögin auglýsa námskeið af ýmsu tagi fyrir félagsfólk sitt og eru þau vel sótt. Hjá FSA er uggur í starfsfólki vegna fækkunar á öldrunarrýmum. Til þyrfti að koma sérstök fjárveiting til að efla geðdeildir í landinu enda sýnir reynsla Finna af kreppuástandi að slíkt er nauðsynlegt. Áhyggjur eru af kannabisfaraldri meðal 20-35 ára fólks hérlendis.
Á Norðurlandi eystra eru nú 1105 manns án atvinnu, þar af 838 að fullu. Á Akureyri eru 722 skráðir án atvinnu, 406 karlar og 316 konur. Atvinnulausir að fullu á Akureyri eru 532, 334 karlar og 198 konur. Áfram er stærsti hópur atvinnulausra á aldrinum 16-29 ára, 134 karlar og 82 konur. Í aldurshópnum 30-55 ára eru án atvinnu 131 karl og 88 konur og í aldurshópnum 56-70 ára 69 karlar og 28 konur. Í Hrísey eru 23 án atvinnu, þar af 19 að fullu. Í hópnum eru 11 karlar og 12 konur.