„Reksturinn hefur gengið vel undanfarin ár og helst það í hendur við hraða uppbyggingu í fiskeldi hér á landi. Við framleiðum nú helmingi meira magn en við gerðum fyrir áratug og sjáum fram á að næstu 10 árum munum við fullnýta okkar framleiðslugetu, fara upp í um það bil 20 þúsund tonn á ári,“ segir Gunnar Örn Kristjánsson framkvæmdastjóri Fóðurverksmiðjunnar Laxár við Krossanes á Akureyri.
Verksmiðjan hefur undanfarin ár framleitt um 10 þúsund tonn af fiskafóðri á ári, með áherslu á bleikju, lax, sole flatfisk og seiðaeldi í landeldisstöðvum auk þess sem fiskafóður fyrir regnbogasilung í sjóeldi er einnig framleitt hjá Laxá.
Umskipti á áratug
„Það hafa orðið algjör umskipti þegar kemur að fiskeldi hér á landi á undanförnum áratug,“ segir Gunnar Örn, en fyrir 10 árum síðan var framleiðslan helmingi minni en nú, rétt um 5 þúsund tonn. Fiskeldi hefur vaxið hröðum skrefum á liðnum árum og gerir að verkum að verksmiðja sem framleiðir fóður fyrir eldisfiskana eflist og dafnar í takt við það. Alls starfa 9 manns hjá Laxá og veltan á síðasta ári var tæplega tveir milljarðar króna. Verksmiðjan er keyrð í 12 tíma yfir veturinn, en þegar framleiðan er hvað mest, síðsumars og fram á haust eru vélarnar í gangi í 16 tíma, tvær 8 tíma vaktir á sólarhring.
Engin áform að svo stöddu um stækkun
Gunnar Örn segir að verksmiðjan sé vissulega komin til ára sinna, tæki og búnaður standi þó enn fyrir sínu. Engin áform eru á þessu stigi um fjárfrekar framkvæmdir eins og að reisa nýja verksmiðju. Með núverandi tækjabúnaði er einungis hægt að framleiða fiskeldisfóður fyrir landeldi, ekki hið fituríka fóður sem þarf fyrir laxeldi í sjókvíum. „Til að framleiða þetta fituríka fóður fyrir laxeldi í sjó þyrfti að ráðast hér í um 400 milljón króna fjárfestingu og laus afkasta geta verksmiðjunnar yrði lengi að greiða þá fjárfestingu niður,“ segir hann. „Við stöndum því á hliðarlínunni, ætlum að sjá hverju fram vindur í fiskeldinu, hver þróunin verður á næstu árum. Eins viljum við sjá meiri stöðugleika í atvinnugreininni áður en við tökum ákvörðun um miklar fjárfestingar í nýrri verksmiðju.“
Fóðurverksmiðjan Laxá er í eigu Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað sem á 67%, Akureyrarbær á 21% og Tækifæri og fleiri aðilar eiga 12%