Framleiðsla Laxár á fiskafóðri jókst um 25% á milli ára

Framleiðsla fyrir innanlandsmarkað hefur tvöfaldast á sl. 2 árum.
Framleiðsla fyrir innanlandsmarkað hefur tvöfaldast á sl. 2 árum.

Rekstur Fóðurverksmiðjunnar Laxár hf. á Akureyri gekk vel á síðasta ári og nam framleiðslan um 8.000 tonnum af fiskafóðri sem er aukning um 25% frá fyrra ári. Velta fyrirtækisins jókst á milli ára og var um 1,5 milljarðar króna á liðnu ári, en þar kemur bæði til aukið magn og hækkanir á hráefnismörkuðum. Staða Laxár er fjárhagslega sterk og er fyrirtækið meðal 1% fyrirtækja sem hafa fengið vottun Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki. Þetta kom fram á aðalfundi Laxár sem haldinn var nýlega. Nú starfa 8 starfsmenn hjá verksmiðjunni, þar af tveir í yfirstjórn, en Gunnar Örn Kristjánsson framkvæmdastjóri segir að samhliða aukinni framleiðslu síðsumars verði starfsmönnum fjölgað og verði 11 talsins þegar kemur fram á haustið. Hann segir að framleiðsla sé að jafnaði meiri yfir sumarmánuðina en að vetrinum og því þurfi góða skipulagningu til að fastir starfsmenn komist í sumarfrí um leið og byrjað er að keyra verksmiðjuna á tveimur vöktum.

Á liðnum árum hefur Laxá fjárfest umtalsvert í húsnæði fyrirtækisins í Krossanesi og vélbúnaði í verksmiðjunni. Stærsta fjárfesting félagins í húsnæði var kaup á skemmu sem er samvaxinn verksmiðju Laxár og fyrir liggur á næsta árum fjárfesting í sílóum fyrir hráefni til að gera verksmiðjunni kleift að takast á við aukið framleiðslumagn. Þá festi fyrirtækið kaup á  nýjum forsjóðara sem undirbýr hráefni fyrir bökun og skilar umtalsverðri framleiðslu aukningu, en auk þess er það grunnur þess að geta framleitt nægilega fituríkt fóður fyrir laxeldi í sjókvíum hér innanlands og í Færeyjum.            
Framleiðsla Laxár fyrir innanlandsmarkað hefur tvöfaldast á síðstliðnum tveimur árum og segir Gunnar Örn að ef áætlanir um aukningu í fiskeldi ganga eftir sjái menn fram á aðra eins aukningu á næstu tveimur árum. Eldi á bleikju í landstöðvum hefur aukist undanfarin ár ásamt því að umtalsvert magn af laxi er nú framleiddur í landstöð Silfurstjörnunnar við Öxarfjörð. Mesta aukningin í fiskeldi mun þó koma frá sjókvíaeldi á Vestfjörðum, þar sem Dýrfiskur stefnir á 5.000 tonna eldi á Regnbogasilungi á norðanverðum Vestfjörðum og Fjarðalax á 10.000 tonna eldi á laxi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Þessi uppbygging á sjókvíaeldi er spennandi þar sem báðir þessir aðilar eru í eigu erlendra félaga sem hafa góðan markaðsaðgang fyrir eldisfisk og þolinmótt fjármagn til að standa að uppbyggingu í áhættusamri atvinnugrein,“ segir Gunnar Örn. 

Margir fylgist með uppbyggingu á sjókvíaeldinu fyrir vestan og ef vel tekst til telur hann sennilegt að það muni opna augu annarra fyrirtækja fyrir því að fiskeldi á Íslandi sé vel mögulegt þrátt fyrir fyrri áföll. „Það er alveg ljóst að Ísland keppir aldrei við Noreg eða Chile í stórfelldu fiskeldi, en með því að skapa sérstöðu þá er vel hægt að byggja upp fiskeldi í 50 þúsund tonn og það væri mjög góð framtíðarsýn fyrir atvinnugreinina að frá Íslandi kæmi eingöngu lífrænt ræktaður eldisfiskur,“ segir Gunnar Örn.

Nýjast