Framleiðsla hjá Kexsmiðjunni lögð niður á Akureyri

Magnframleiðsla kexvara hjá Kexsmiðjunni á Akureyri hefur verið lögð niður. Þess í stað mun öll slík framleiðsla fyrirtækisins flytjast í nýtt húsnæði Ísams á Korputorgi og verður framleiðsla Fróns og Kexsmiðjunnar hér eftir undir sama þaki. Frá þessu greint í Morgunblaðinu í dag.

Kristján Theodórsson, framkvæmdastjóri Myllunnar, segir í samtali við Morgunblaðið að kostnaðarsamt sé að halda úti tveimur framleiðslustöðvum. Að auki krefjist áframhaldandi framleiðsla á Akureyri þess að ráðist verði í ákveðnar framkvæmdir  en tekur fram að ekki sé frekari tilfærslna að vænta fyrir norðan. Þá haldist önnur starfsemi áfram óbreytt, ýmis sérbakstur eins og snúðar, vínarbrauð og fleira verður enn bakaður á staðnum.

Ljóst er að flutningurinn mun valda því að störf færast frá Norðurlandi til höfuðborgarinnar, en ekki er ljóst um hversu mörg störf er að ræða. Þá verður umtalsvert rými laust þar sem áður var framleiðsla. Kristján segir unnið að því að finna rekstraraðila er nýtt geti rýmið. 

 


Athugasemdir

Nýjast