Framkvæmdum á húsnæði fyrir heimilislausa að ljúka

Sandgerðisbót. Mynd/Þorgeir Baldursson.
Sandgerðisbót. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Verið er að ganga frá tveimur litlum einbýlishúsum í Sandgerðisbót á Akureyri sem ætluð eru fyrir heimilislausa. Framkvæmdir við húsin eru langt komnar og segir Heimir Haraldsson, formaður velferðarráðs Akureyrarbæjar, í samtali við Morgunblaðið í dag að vonast sé til að þau verði tekin í notkun í næsta mánuði.

Í frétt Morgunblaðsins segir að á skipulagi sé rými fyrir fjögur hús en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær síðari tvö húsin verða sett upp. Heimir segir að til viðbótar við húsin tvö í Sandgerðisbót verði á næstu vikum tekin í notkun þrjú rými sem hugsuð eru sem sértæk húsnæðisúrræði. Heimir segir að samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði bæjarins liggi ekki fyrir nú hvort einhver íbúi á Akureyri flokkist undir það að vera heimilislaus.

„En þessi úrræði sem brátt verða tekin í notkun breyta miklu fyrir bæinn þegar kemur að framboði á húsnæði,“ segir hann. Húsin í Sandgerðisbót eru 55 fermetrar að stærð. Kostnaður nemur 56 milljónum fyrir tvö fullbúin hús. Húsin eru byggð úr krosslímdum timbureiningum, einangruð að utan og klædd með álklæðningu. Umræða hefur um langt skeið verið um skort á úrræðum fyrir heimilislausa Akureyringa, einkum staðsetning þeirra. Fyrst stóð til að reisa smáhýsi á iðnaðarlóð við Norðurtanga en sú hugmynd féll ekki í góðan jarðveg og var fallið frá áformum um að koma heimilislausum fyrir á jaðarsvæði. Þá var varpað fram hugmynd um smáhýsi í Naustahverfi.

Íbúar í hverfinu tóku illa í þá staðsetningu og var því einnig hætt við að reisa húsin þar. Ágætur hljómgrunnur var hins vegar fyrir staðsetningu smáhýsanna ofan við Sandgerðisbót, en þar í kring mun á næstu árum rísa nýtt hverfi, Holtahverfi norður, segir í frétt Morgunblaðsins.


Athugasemdir

Nýjast