Undirbúningur fyrir komandi haustönn er hafinn hjá framhaldsskólunum á Akureyri. Kennsla hefst í Verkmenntaskólanum á Akureyri 18. ágúst en síðar í Menntaskólanum á Akureyri.
Á vefsíðum skólanna beggja kemur fram að upphaf haustannar taki mið af þeim takmörkunum sem í gildi verða vegna COVID og kemur fram á heimasíðu MA að birtar verði nýjar upplýsingar um hvernig skólabyrjun verði háttað eftir að Almannavarnir hafi birt frekari upplýsingar um samkomutakmarkanir í næstu viku.
“Við förum inn í nýtt skólaár með COVID ívafi, og ljóst að skólastarfið mun að einhverju leyti vera litað af viðveru veirunnar,” segir á heimasíðu VMA. Eins er þess getið að skólinn fylgi fyrirmælum almannavarna um takmarkanir og því ómögulegt að segja til um hvernig fram vindur.