Akureyri tapaði sínum öðrum leik í röð í N1- deild karla í handbolta er liðið lá á heimavelli fyrir Fram í kvöld með fimm marka mun, 26:31. Eftir góðan sigur gegn FH fyrir viku síðan hafa norðanmenn tapað tveimur leikjum í röð gegn liðum í botnbaráttunni ,en halda þó enn öðru sæti deildarinnar. Fyrri hálfleikur leiksins í kvöld var hníjfafn. Framarar byrjuðu betur og heimamenn voru lengi í gang og það tók þá tæpar sex mínútur að skora fyrsta markið. Staðan í hálfleik 13:13.
Framarar komu beittir inn í síðari hálfleikinn og komust í 17:14. Akureyri skoraði þá þrjú mörk í röð og náði að jafna metin í 17:17 og héldu þá væntanlega margir að leikurinn væri að snúast heimamönnum í hag. Svo reyndist þó ekki vera. Framarar voru ávallt skrefinu á undan og náðu fjögurra marka forystu, 26:22, þegar sjö mínútur lifðu leiks og Akureyri einum manni færri. Það reyndist vendipunktur í leiknum og Fram sigraði að lokum með fimm marka mun, 31:26, og vann gríðarlega mikilvægan sigur í botnbaráttu deildarinnar.
Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Akureyrar í kvöld með 6 mörk, Árni Þór Sigtryggsson og Jónatan Þór Magnússon skoruðu 4 mörk hvor og þeir Heimir Örn Árnason og Andri Snær Stefánsson skoruðu 3 mörk hvor. Í marki heimamanna varði Hafþór Einarsson 10 skot og Hörður Flóki Ólafsson 4 skot.
Haraldur Þorvarðarson var atkvæðamestur fyrir Fram í kvöld með 7 mörk, Róbert Aron Hostert skoraði 6 mörk og Daníel Berg Grétarsson skoraði 4 mörk. Magnús Gunnar Erlendsson átti góðan leik í marki Fram og varði 22 skot.
Akureyri er ennþá í öðru sæti deildarinnar með 22 stig, en Framarar eru komnir með 11 stig á botni deildarinnar.