Fræum nýsköpunar sáð á Stéttinni

Júlía Margrét Birgisdóttir og Sólveig Ósk Guðmundsdóttir hlutu aðalverðlaun Krubbs fyrir verkefnið H…
Júlía Margrét Birgisdóttir og Sólveig Ósk Guðmundsdóttir hlutu aðalverðlaun Krubbs fyrir verkefnið Hugarró. Með þeim á myndinni er Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings. Myndir:Hraðið nýsköpunarmiðstöð.

Krubbur-hugmyndahraðhlaup (hakkaþon) var haldið á STÉTTINNI á Húsavík 8.-9. mars sl. Hraðið-miðstöð nýsköpunar stóð fyrir viðburðinum í samvinnu við KLAK-icelandic startups, m.a. með styrk úr Lóu-nýsköpunarsjóði. Um er að ræða samstarfsverkefni með fyrirtækjum á svæðinu og stoðkerfi atvinnulífsins, s.s. SSNE, Eim, Norðanátt o.fl. 

Um 70 gestir sóttu viðburðinn og voru þátttakendur 30 í 7 teymum. Unnið var með nýsköpunartækifæri út frá nýtingu hráefnis sem fellur til sem aukaafurð hjá fyrirtækjum á nærsvæðinu.

Hraðið-miðstöð nýsköpunar mun standa fyrir Krubb-hugmyndahraðhlaupi árlega og er þegar farið að huga að viðburði næsta árs. 

Fram komu áhugaverðar nýsköpunarhugmyndir, þ.m.t. eftirfarandi:

  • Þróun styrktra steypumóta með nýtingu kvartsefnis sem fellur til við framleiðslu í kísilmálmverksmiðju PCC,
  • Endurnýting textílúrgangs til fataframleiðslu, m.a. með nýtingu orku til þurrkunar og heinsunar.
  • Þróun og framleiðsla á skynörvunarfatnaði fyrir börn með sérþarfir.
  • Endurvinnsla plastsúrgangs af ströndum til framleiðslu plastþráða til fataframleiðslu í svæðisbundna sölu til umhverfismeðvitaðs ferðafólks.
  • Stofnun Waste-Lab smiðju sem byggir á greiningu og rannsóknum tækifæra til endurnýtingar og afleiddra svæðisbundinna aðgerða til nýtingar og vöruþróunar.
  • Nýting kvartsefnis sem fellur til við framleiðslu í kísilmálmverksmiðju PCC til þróunar plast-/steinefnis í borðplötur, steina o.fl.
  • Nýtingu plastúrgangs af ströndum til að mynda uppistöðuefni sem stutt getur við þróun vistkerfa („urban reefs“) og/eða sem vistkerfismyndandi uppfyllingarefni.

Vinningshugmyndir:

 

STERK STEYPA – 300 þ.kr. verðlaun frá PCC BakkiSilicon

Sterk steypa

Verkefnið Sterk steypa vann fyrstu verðlaun í áskorun PCC Bakki Silicon, en hún snérist um að skapa tækifæri úr þeim 3.000 tonnum af kvarssandi sem fellur til á hverju ári hjá fyrirtækinu.

Í teyminu voru Ingibjörg Benediktsdóttir verkefnastjóri ÞÞ og almannavarnarfulltrúi, Methúsalem Hilmarsson, sérfræðingur um áhættumat og öryggismál, Knútur Jónasson löggiltur hönnuður og Sigurður Páll Tryggvason sem hefur áralanga reynslu af byggingavinnu.

Teymið kynnti nýja vöru sem ber hið íslenska heiti Varnarhyrna og er til þess fallin að skapa leiðargarða í náttúruvá, s.s.gegn  hraunflæði, vatni og aur. Hyrnan er forsteypt úr kvartsblandaðri steypu, en með því fæst aukin harka á sama tíma og steypan hefur meira slit- og efnaþol en hefðbundin steypa. Hver eining er um 1.400 kg og raðast í varnargarða á sama tíma og hægt er að stafla þeim þétt til að auðvelda flutning þeirra.

Hyrnurnar hefði verið hægt að nota í aurskriðunum í Útkinn til að gera örugga leið á meðan flytja þurfti bændur til að mjólka. Einnig hefði verið hægt að leggja þær yfir vatnslagnir til varnar í hraunflæðinu á Reykjanesskaga. Markhópurinn er ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar og næstu skref teymisins eru að leita að fjármögnun og vinna að frekari þróun eininganna.

 

HUGARRÓ – 300 þ.kr. aðalverðlaun Krubbs 2024

Hugarró

Aðalverðlaun Krubbs féllu í skaut Júlíu Margrétar Birgisdóttur og Sólveigar Óskar Guðmundsdóttur

Þær kynntu hugmynd sína um framleiðslu á skynörvunarfatnaði fyrir börn með hegðunarvanda. Afar takmarkað framboð er í dag á vörum sem fullnægja skynþörfum einstaklinga með greiningar eins og einhverfu, ADHD og kvíða í dag. Hugmynd þeirra snýst um að hanna peysu úr endurunnu efni sem býr yfir sérstakri hljóðeinangrun og skyggni í hettu. Einnig nag-hálsmáli, fidgets í vösum, þrengingum á ermum og efni sem hentar börnum með skynörvunarvanda. 

Meðlimir teymisins búa yfir áralangri starfsreynsu á leikskóla auk þess að eiga báðar börn með einhverfu og ADHD.

GREENWAVES – 100 þ.kr. verðlaun frá Ocean Missions/Norðurþingi

Green waves

Teymið Greenwaves kynnti lausn gegn áskorun Ocean Missions sem er plastmengun í sjónum. Verkefnið snérist um að nota endurunnar plastflöskur til að búa til plastþræði sem síðan verða notaðir til að framleiða fatnað.  Markhópurinn er ferðamenn sem heimsækja Húsavík á hverju ári. Markaðs- og kynningarstarf fatnaðarins leggur ríka áherslu á málefni hafsins og umhverfisvernd. Í teyminu voru Matteo, Rodrigo, Michal, Gaia og Valentina sem öll eru hjá Rannsóknasetri HÍ á Húsavík þar sem þau vinna að rannsóknaverkefum á Skjálfanda.

NEKT – 200 þ.kr. verðlaun frá Íslenska gámafélaginu

Nekt

Teymið sem vann áskorun Íslenska gámfélagsins bar heitið Nekt og meðlimir þess eru Aldey Unnar Traustadóttir, Þóra Katrín Þórsdóttir, Björg Sigurðardóttir, Helga Dagný Einarsdóttir og Arna Þórarinsdóttir.  Verkefni þeirra snérist um endurvinnslu á textílúrgangi. Með því að tæta textílúrgang í sérstökum vélum verður búinn til trefjahnoðri og úr honum spunninn þráður til fataframleiðslu. Framtíðarsýn þeirra er að vefa efnið sjálfar en í upphafi verður megináherslan á hreinslun og þráðagerð. Sérstaða verkefnisins er að nýta orku á svæðinu til hreinsunar og þurrkunar á textílnum.

 


Athugasemdir

Nýjast