Stjórn Íþróttafélagsins Þórs hefur ákveðið að fara af stað með fræðsluátak um skaðsemi munn- og neftóbaks, með það að markmiði að útrýma notkun hvers kyns tóbaks af íþrótta- og félagssvæði Þórs frá og með 1. júní í sumar. Fram kemur á vef Þórs, að Marta Hermannsdóttir, tannlæknir og handknattleikskona, muni halda tvo opna fyrirlestra í Hamri á næstu vikum, þann fyrri miðvikudaginn 2. maí og þann seinni þriðjudaginn 15. maí og hefjast þeir báðir kl. 20:00. Einnig verði sams konar fræðsla gerð að föstum lið í þjálfun og fræðslu 14-16 ára iðkenda, svo sem í knattspyrnuskóla Þórs og á öðrum vettvangi þar sem það á við innan hverrar deildar fyrir sig. Munntóbak hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og hefur m.a. verið mikið notað af íþróttamönnum.